Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 14:48:28 (1470)

2003-11-11 14:48:28# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér samhliða tvö frv. um fyrirkomulag sjóða undir stjórn sjútvrn. Í fyrsta lagi frv. til laga um sérstakan sjóð vegna ólögmæts sjávarafla sem fyrirhugað er að nefna Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Sá þáttur málsins snýr að því að tekjuöflunin komi af ólöglegum afla, þ.e. afla sem er umfram aflamark eða er ekki landað sem Hafró-afla samkvæmt þeirri reglu sem sett var um það á hv. Alþingi fyrir nokkru síðan. Tekjurnar sem komið hafa af ólöglegum sjávarafla á árunum 1998--2002 hafa samkvæmt því sem stendur í frv., sem er á þskj. 274, verið um 182 millj. Það eru tæpar 40 millj. á ári.

Nú veit ég eigi vegna þess að það kemur ekki fram í frv. hvernig þessar tekjur hafa breyst eftir að við fjölguðum fisktegundum í kvótakerfinu eins og við höfum verið að gera á undanförnum árum, en það er líklegt að í einhverjum tilfellum hafi sektargreiðslur aukist hin seinni ár vegna þess að fisktegundirnar innan kerfisins eru orðnar mun fleiri en áður var og þar af leiðandi fleiri möguleikar á því að menn eigi ekki aflamark í viðkomandi tegundum, nái ekki að nýta sér tegundartilfærslu eða að prósentan í hinum löglega afla eða Hafró-aflanum sem við svo köllum, 5% reglan, dugi til að gera þann afla löglegan. En eins og ég sagði áður, virðulegi forseti, kemur það ekki fram í grg. með frv. hvernig þessi afli hefur að verðmæti til verið að breytast á undanförnum árum, heldur eingöngu að hann hafi verið 182 millj. frá árunum 1998--2002. Það væri nú fróðlegt, virðulegi forseti, ef hæstv. sjútvrh. gæti upplýst okkur um það í þessari umræðu hvernig þessi ólöglegi afli hefur skipst á árin, þ.e. að verðmæti til og hvaða breytingar hafa orðið á honum á því árabili sem hér er nefnt.

Svo hinn þáttur málsins sem við erum líka með til umræðu og er frv. á þskj. 275, um Hafró-aflann sem er jú eins og áður sagði löglegur afli, var gerður löglegur hér með sérstökum lögum um svokallaða 5% reglu. Fyrir þann afla hafa komið þó nokkuð miklir fjármunir á undanförnum árum eða frá því að reglan var tekin upp. Hún var tekin upp 1. feb. árið 2002 og á því ári námu tekjur Hafrannsóknastofnunar vegna þessa 96 millj. kr. og 125 millj. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins 2003. Þarna er um að ræða það sem ég vil skilgreina sem löglegan afla. Þó kann það að vera að svar hæstv. sjútvrh. beri ekki fullkomlega í sér þá tölu vegna þess að í svari hans til hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á þskj. 242 kemur fram á einum stað að þessi Hafró-afli og afli sem tilkynntur hefur verið umfram heimildir sem Hafró-afli hafi verið, með leyfi forseta: ,,Samkvæmt bráðabirgðatölum í dag var þessi umframafli nýliðins fiskveiðiárs 41.668 kg.`` Það kann því að vera að þessi 41 þús. kíló séu inni í þessari skilgreiningu um tekjurnar varðandi Hafró-aflann og væri fróðlegt að fá það upplýst við þessa umræðu m.a. hvort þessi tonn teljist innan 182 milljónanna eða teljist með Hafró-aflanum, hvort það hafi verið skilgreint, bara svo að við séum með það á hreinu hvað við erum að tala um hvorum megin.

Út af fyrir sig, virðulegi forseti, tel ég ekki ástæðu til þess að leggjast gegn því að verið sé að stofna sérstakan sjóð um þau verðmæti sem koma hér að landi. Það var jú rætt á sínum tíma, m.a. í sjútvn., að þegar við tókum upp regluna um Hafró-aflann upp á 5%, mig minnir að þar hafi verið sagt í greinargerð eins og ég held að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hafi vitnað til áðan, að um slíkan afla skyldi um sinn vera sátt að rynni til Hafrannsóknastofnunar, en að ákveðnum reynslutíma loknum skyldu menn skoða hvort eigi væri rétt að aðrir sjálfstæðir vísindamenn eða sjálfstæðir rannsóknaraðilar gætu fengið aðgang í þetta fjármagn. Ekki fullyrði ég nú, virðulegi forseti, að þetta sé rétt orðað en ég held að meiningin sé nokkurn veginn rétt. (Gripið fram í: Næstum því orðrétt.) Og ég hygg, virðulegi forseti, að um það höfum við verið nokkuð sammála í sjútvn., að það væri meira en sjálfsagt að stuðla að því að fleiri gætu rannsakað lífríkið á hafsvæðum Íslands heldur en eingöngu Hafrannsóknastofnun. Ég minnist þess, virðulegi forseti, að ég gagnrýndi það sérstaklega að Hafrannsóknastofnun skyldi svo vera umsagnaraðili, ef aðrir ætluðu að sækja um, hvort þeir ættu að fá fjármuni eða ekki.

Við erum hér að færa tekjur af hinum svokallaða Hafró-afla í sérstakan sjóð en finnst mér þá þurfa að liggja fyrir, virðulegi forseti, hvernig starfemi slíks sjóðs á að vera. Það er jú sagt í greinargerðunum að þetta verði Verkefnasjóður sjávarútvegsins og hann geti tekið að sér að fjármagna ýmis ný verkefni o.s.frv. og geti þar af leiðandi m.a. komið inn á verkefni eins og vikið var að í hinni svokölluðu AVS-skýrslu eða skýrslunni um aukið verðmæti í sjávarútvegi í verkefni sem þar var bent á, og ég ætla ekkert að gera lítið úr því. Sú skýrsla var að mörgu leyti mjög merkileg og ég verð reyndar að segja það alveg eins og er að ég undrast þolinmæði hæstv. sjútvrh. að hafa ekki fyrir löngu tekið á þeirri skýrslu og þeim leiðbeiningum sem þar eru því að þar er jú verið að vísa veginn til þess að hægt sé að auka verðmæti sjávarútvegsafurða með ákveðnum aðgerðum um hundruð króna á hvert kíló. Það er því vissulega ástæða til að skoða það.

Það er í raun og veru mjög merkilegt sem fram kom í þeirri skýrslu hversu mikill verðmætisauki getur verið annars vegar milli frosins fisks, hvort sem hann er unninn í landi eða á sjó, og ferskfisks. Ég veit að sjútvrh. man þessar tölur, þær hlupu á eitthvað á annað hundrað krónur á milli kílóa í sumum fisktegundum. Þannig að þar er eftir miklu að slægjast, virðulegi forseti. Það er samt rétt að geta þess að íslenskir útgerðarmenn hafa nú á síðustu missirum verið að færa sig frá jafnvel frystingu úti á sjó til þess að koma með ferskan afla að landi og e.t.v. þá til þess m.a. að sækjast í þessi verðmæti.

En aftur að þessari sjóðsstofnun. Hér erum við að stofna til sjóðs og við höfum ekki séð drög að reglugerð fyrir þennan sjóð eða hvernig honum verður sett stjórn eða starfshættir. Ég vil beina þeirri tillögu til hæstv. sjútvrh. að sjóðurinn sem verið er að stofna, sem við getum kallað hér vinnuheitinu Verkefnasjóður sjávarútvegsins, verði a.m.k. deildaskiptur, þ.e. að tekjum sem í hann koma annars vegar af löglegum afla og hins vegar af ólöglegum afla verði haldið aðskildum innan sjóðsins þannig að það liggi ævinlega fyrir á hverjum tíma, virðulegi forseti, hvernig tekjustreymið til sjóðsins er, af hvaða aflaheimildum þær koma hvort sem þær teljast löglegar eða ólöglegar og sektarákvæði og upptaka, og þá líka hvernig þeim fjármunum er varið til einstakra verkefna. Þetta vildi ég nú leggja til í þessu máli og vona að það verði tekið til athugunar.

[15:00]

Ég hefði líka talið mjög eðlilegt, virðulegi forseti, að áður en þetta mál verður afgreitt frá sjútvn. sýni ráðherrann henni drög að reglugerð fyrir sjóðinn um hvernig hann hyggist láta hann starfa o.s.frv. Ég hefði talið eðlilegt að menn hefðu þær upplýsingar fyrir framan sig þannig að fyrirhuguð verkefni sjóðsins lægju nokkurn veginn fyrir og hvernig honum væri ætlað að starfa.

Því er ekki að leyna, virðulegi forseti, að Hafrannsóknastofnunin hefur haft mikil not af þeim fjármunum sem runnið hafa til hennar af þessum löglega afla, 5% aflanum, Hafró-aflanum, á undanförnum árum. Og það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að aukið úthald hafrannsóknaskipanna, m.a. hins nýja Árna Friðrikssonar, hefur verið fjármagnað að stórum hluta með þeim fjármunum sem komið hafa úr Hafró-aflanum. Þar erum við að nýta hlutina á réttan hátt vegna þess að við erum jú að efla þær rannsóknir sem nýju tækin um borð í því skipi gefa okkur færi á að afla. Þar er eftir mikilli þekkingu að slægjast að mínu viti og vissulega eðlilegt að við horfum til þess að nýta þær fjárfestingar sem lagt hefur verið í til hafrannsókna hvort sem við gerum það með þessari tekjuhlið eða annarri. Ég vara hins vegar við því að þessar tekjur verði alfarið teknar af Hafrannsóknastofnum. Ég held að það þurfi að vera einhver vissa fyrir því að Hafrannsóknastofnun fái eitthvað af þessum tekjum. Með sama hætti vil ég einnig segja það, virðulegi forseti, að ég teldi að líka ætti að koma nokkuð skýrt fram að það ætti að ráðstafa tekjunum til einhverra annarra hluta. Ég get þá nefnt t.d. Landhelgisgæslu og Lífeyrissjóð sjómanna sem hefur farið mjög illa á undaförnum árum. Það eru mörg verkefni, virðulegi forseti, sem komu fram í umræðunni á sínum tíma þegar verið var að tala um þennan sjóð, þann afla utan kvótakerfisins sem var gerður löglegur og í hvaða þörf verkefni hann gæti runnið.

Það eru nokkur atriði, virðulegi forseti, sem mig langar til að vekja athygli á. Þau eru til hliðar við þetta mál en tengjast því þó mjög. Í svörum sem hæstv. sjútvrh. hefur gefið við fyrirspurnum hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á undanförnum vikum hefur ýmislegt komið í ljós. Í svari við spurningu um meðafla skipa sem stunda flottrollsveiðar á uppsjávarfiskum, kolmunna, síld og loðnu, er tekið fram hvað af meðafla hafi komið fram í síld innan lögsögunnar. Jafnframt kemur fram í svari, virðulegi forseti, á þskj. 241 að enginn meðafli hafi verið vigtaður eða skráður á tímabilinu 1. sept. 2000 til 31. ágúst 2003 við kolmunnaveiðar innan landhelginnar. Hvernig má þetta vera, virðulegi forseti? Ég held bara að það geti ekki staðist. Það kemur fram að meðafli íslenskra skipa við veiðar á síld og kolmunna utan landhelgi er skráður og þar er skráð hvaða afli það er. Af hinum verðmætari tegundum reynist helst vera eftirsjá í þeim ufsaafla sem kemur með í þessi veiðarfæri en í svari á þskj. 280 segir m.a. að mest hafi fengist 52 tonn af ufsa í færeysku lögsögunni og 31 tonn af ufsa í þeirri íslensku. Samt segir ekkert um það í þessu svari hæstv. sjútvrh., virðulegi forseti, að þetta hafi verið með kolmunnaafla heldur verður maður að draga þá ályktun að aflinn innan íslensku lögsögunnar hafi verið með síldarafla því að í þessu svari kemur ekkert fram um að neinn meðafli hafi verið með kolmunna innan lögsögunnar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að annaðhvort er hér um mistök að ræða í þessum svörum eða þá að málið er dálítið undarlegt. Ég held að annað slagið hljóti að koma meðafli með á kolmunna- og síldveiðum innan lögsögunnar í þessi veiðarfæri og það er auðvitað sjálfsagt að slíkur afli komi fram. Menn eiga að sitja við sama borð að því leyti til. Það gengur ekki, virðulegi forseti, að við sumar veiðar sé aflinn ekki skráður og ekki dreginn frá aflamarki en við aðrar veiðar séu menn jafnvel sviptir veiðileyfi fyrir 12 kíló af karfa eins og gerðist með trilluna í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum. Þetta fær ekki staðist, virðulegi forseti, og þarf að athugast.

Svo er líka mjög merkilegt svar á þskj. 240 sem er að vísu dálítið mikil bók að fara í gegnum. Við lauslega skoðun á því svari sýnist mér samt koma í ljós að Hafró-afla hefur ekki verið landað svo neinu nemi af flottrolls- og nótaskipum og heldur ekki af frystiskipum en af ýmsum öðrum skipum með ýmis veiðarfæri. Það er, virðulegur forseti, mjög merkilegt í þessu upplýsingasvari að skráður sé meðafli sem Hafró-afli við notkun á flestum veiðarfærum, m.a. trolli og dragnót, hjá minni skipum en ekki hinum stærri. Það held ég að fái heldur ekki staðist, virðulegi forseti. Af þeim 480 skipum sem hér hafa gefið upp Hafró-afla finn ég hvorki í fljótu bragði nótaskip og uppsjávarveiðiskip né frystitogara og það vekur auðvitað ákveðnar spurningar og furðu án þess að ég geti neitt dæmt um það. Ég hlýt samt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til þess að á þetta mál sé litið. Þá kemur líka spurningin um hvort 5% séu nægjanleg í þessu sambandi. Þurfum við ekki bara að leyfa hærri tölu, t.d. 10%, ef hinum stærri og afkastameiri skipum finnst ekki taka því að nýta sér regluna? Er það það sem málið snýst um, virðulegi forseti? Spurningunni er beint til hæstv. sjútvrh. hvað hann þenki um það að mönnum finnist ekki taka því að nýta sér regluna. Ég þori ekkert að fullyrða um það en þetta vekur upp spurningar.

Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér þau svör hæstv. sjútvrh. sem hafa komið fram við þessum fyrirspurnum hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem birtast á einum þremur þingskjölum. Þar er ýmsar upplýsingar að finna sem rétt er að skoða og ættu eingöngu að vera okkur hjálplegar við það að starfa hér áfram málefnalega að þingstörfum og skoða hvað betur mætti fara.

Að lokum get ég sagt það, virðulegi forseti, að það er mjög margt í reynslu og forsögu og sennilega því miður líka í framtíð kvótakerfisins sem mun valda okkur erfiðleikum við að vinna í því svo vel sé á komandi árum. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að þessu kerfi beri að breyta.