Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:08:34 (1471)

2003-11-11 15:08:34# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Á 122. löggjafarþingi flutti ég ásamt hv. þm. Árna R. Árnasyni till. til þál. um að hugað yrði að því hvort ekki væri rétt að skipstjóri gæti ákveðið við löndun hve mikinn hluta afla skips skuli telja til kvóta þess og að annar hluti aflans verði eign Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins. Þarna var lögð fram tillaga um mjög svipað efni og um er að ræða í dag nema hún gerði ráð fyrir því að gjaldið fyrir þennan kvóta yrði 5--15%, háð tegundum, en þar var ekki 5% magntakmörkun eins og er í dag. Sjútvrn. fór inn á þá braut að hafa magntakmörkun 5% en borgaði 20% fyrir afla sem ég tel of mikið. Ég hefði frekar viljað að menn beittu enn frekari aðferðum við að hafa breytilegt verð eftir fisktegundum, hærra verð fyrir loðnu sem meðafla og lægra verð fyrir þorsk því að hann er verðmætari, en magnið yrði ótakmarkað.

Frú forseti. Frá upphafi hafa komið um 3 þús. tonn á land með þessum hætti og það er náttúrlega ekki nema dropi í hafið miðað við það brottkast sem menn hafa verið að tala um að sé á Íslandsmiðum. Sumir hafa verið með dálítið glannalegar yfirlýsingar um 50--100 þús. tonn á ári. Ég hef ekki fulla trú á því. Einhvers staðar um 20 þús. tonn gæti ég alveg hugsað mér, 20--30 þús. tonn, og þá eru náttúrlega 3 þús. tonn á tæpum tveimur árum ekki nema lítið brot af því. Það er greinilegt að 5% mörkin takmarka töluvert það sem komið er með að landi.

Frú forseti. Áður en þessar reglur voru settar voru sjómenn settir í rökfræðilega klemmu vegna þess að menn geta ekki átt kvóta fyrir öllum tegundum sem þeir hugsanlega veiða. Ef menn sem voru að veiða þorsk veiddu t.d. síld í nót, eina síld, máttu þeir ekki henda henni en þeir máttu heldur ekki koma með hana að landi, frú forseti. Þeir urðu að éta hana. Það var eina leiðin til að vera ekki lögbrjótur. Það var þá eins gott að þeir veiddu ekki mikið af síld því að þá kæmust þeir ekki að landi því þeir væru í því að borða síld alla daga. Þetta kerfi gekk ekki upp og eiginlega þvingaði menn til lögbrota. Nú er búið að ráða bót á því með þessari 5% reglu og hún er að sanna sig. Það eru miklir peningar sem koma þarna í þágu rannsóknastofnananna og ég skora á hæstv. sjútvrh. að fylgjast vel með þessu og skoða hvort ekki megi afnema mörkin en hafa verðið breytilegt.

Ég er ekki sammála því sem kom fram hjá fyrri hv. ræðumanni um að það ætti að borga 50% af verðinu. Ég held nefnilega að 20% sé of hátt. Verðið þarf að vera nægilega hátt til þess að sjómenn nenni og vilji koma með aflann að landi en það þarf að vera það lágt að þeir geri ekki út á aflann og þarna þarf að finna mjög fína línu sem ég held að sé einhvers staðar á bilinu 5--15%, eftir tegundum.

Svo er mikilvægt í hvað þessir peningar fara. Það er mjög mikilvægt vegna þess að velvilji sjómannsins liggur að baki og ef peningarnir fara í eitthvað sem nýtur velvilja hans, t.d. hafrannsóknir, Lífeyrissjóð sjómanna eða kannanir og skoðanir á nýjum veiðarfærum og öðru slíku, er það eitthvað sem sjómanninum er vel við og þá kemur hann gjarnan með aflann að landi. Ef t.d. þessir fjármunir yrðu notaðir til að hafa eftirlit með sjómanninum er það síður líklegt til vinsælda þannig að það skiptir töluverðu máli í hvað peningunum verður varið og þess vegna hef ég efasemdir um eftirlitsþáttinn sem gert er ráð fyrir að þessum peningum verði varið í.

Frú forseti. Ég hef haft töluverðar efasemdir um starf Hafrannsóknastofnunar síðustu árin vegna þess að í 20 ár eru þessir opinberu vísindamenn búnir að rannsaka og rannsaka og við veiðum alltaf minna og minna. Það segir mér að það er eitthvað að enda kann það aldrei góðri lukku að stýra, það þekkja vísindamenn, að vera með opinbera skoðun í vísindum. Þetta reyndist illa í Sovétríkjunum, frú forseti, og ég held að það reynist jafnilla hérna. Þegar einhver vísindamaður er búinn að halda því fram, segjum í 10 ár, að það megi ekki veiða svo og svo mikið og halda niðri lífskjörum heillar þjóðar, sinnar eigin þjóðar, getur hann ekki viðurkennt mistök. Hann má ekki hafa rangt fyrir sér. Hann má ekki hafa haft rangt fyrir sér á liðnum árum. Þetta er gallinn við núverandi kerfi.

Hafrannsóknastofnun gengur út frá þeirri kenningu að það eigi að geyma fiskinn í sjó, hann sé eins og bankabók, hann bara sé þarna, svo stækki hann og það sé betra að veiða hann ári seinna. En þeir athuga það ekki að með því að veiða stærsta fiskinn gera þeir einmitt öfugt við það sem bændur hafa gert í aldanna rás. Bændur hafa alltaf sett á vænstu gimbrarnar til að rækta upp stóran stofn. Hvað gerum við í sjávarútveginum? Við drepum allan fisk sem nær ákveðinni stærð þannig að þeir fiskar sem verða kynþroska eftir þá stærð verða aldrei til. Þeir fjölga sér ekki. Allir fiskar sem verða kynþroska undir þessari stærð fjölga sér og þróunarkenning Darwins, frú forseti, gildir á Íslandi líka. Þeir hæfustu lifa, þeir hæfustu miðað við þá stöðu að fiskar yfir ákveðinni stærð eru drepnir. Það þýðir að við erum að ala upp dverga, við erum að ala upp dverga við landið, dvergþorska sem verða kynþroska litlir, geta af sér lítil afkvæmi og eru hálfgerðar horrenglur. Þetta er mjög hættulegt. Þess vegna vil ég að menn skoði mjög alvarlega og séu gagnrýnir á störf Hafrannsóknastofnunar og velti fyrir sér hvort vísindamenn hennar séu raunverulega að gera rétt, hvort það sé ekki rétt að veiða smáfiskinn líka og þá jafnvel utan kvóta ef því er að skipta. Það er ekki ótakmarkað fæðuframboð í sjónum og það sem litli fiskurinn étur étur stóri fiskurinn ekki, nema hann étur náttúrlega litla þorskinn, það gerir hann stundum.

Ég er mjög hlynntur þessari tillögu. Þarna á að vera hægt að veita fjármuni til annarra vísindamanna en þessara sem starfa með opinbera skoðun, ríkisskoðun, og ég held að það sé hugsanleg leið út úr þeirri klemmu sem við erum í í dag. Þegar menn eru komnir með reynslu á þetta kerfi og skoða hversu mikið 5% mörkin takmarka þann afla sem kemur á land vildi ég gjarnan afnema mörkin en lækka verðið þannig að jafnvægi komist á og hægt verði að spila á það hve mikið kemur að landi með því að hafa breytilegt verð eftir aðstæðum, sókninni og tegundum.