Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:17:41 (1473)

2003-11-11 15:17:41# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert að þeim vísindamönnum sem vinna hjá Hafrannsóknastofnun. Alls ekkert. Og ég hnjóðaði ekkert í þeirra garð. (SJS: Nú?) Það sem er að er kerfið, þ.e. að vísindamaður er að gefa ráð til heillar þjóðar hvernig hún eigi að haga efnahagsástandi sínu. Það er slíkt kerfi sem gerir það að verkum. Það er afskaplega erfitt fyrir vísindamann að hafa haft rangt fyrir sér.

Öll vísindi ganga út á það, frú forseti, að menn hafi hugsanlega rangt fyrir sér. Það er hin svokallaða gagnrýna vísindalega hugsun. Menn eigi alltaf að reikna með því að það sem þeir eru að gera sé rangt. Öðruvísi geti þeir ekki stundað rannsóknir. En þegar menn, um leið og þeir stunda rannsóknir, gefa ráð til heillar þjóðar og eiga kannski þátt í því að hún hafi lifað við lakari lífskjör í áratugi, þá er ekki í rauninni hægt í þessu kerfi fyrir góðan og gegnan vísindamann að vera gagnrýninn á fyrri niðurstöðu. Ég er að gagnrýna kerfið. Ég er að gagnrýna hvernig kerfið er uppbyggt. Þessir vísindamenn eru örugglega mjög færir hver á sínu sviði og sinna starfi sínu af fullri einurð, þannig að ég set ekkert út á það. En það er umgjörðin sem þeir starfa í sem gerir vísindalega hugsun nánast útilokaða. Mér þætti gaman að sjá vísindamenn við Háskóla Íslands starfa undir þeim kringumstæðum að þeir mættu ekki hafa rangt fyrir sér, frú forseti, nema það hefði einhverjar geigvænlegar afleiðingar fyrir þjóðina.