Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:22:40 (1476)

2003-11-11 15:22:40# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil eiginlega fagna því sem hv. þm. sagði, að hann vildi afnema mörkin á því sem menn gætu komið með að landi undir þessum reglum vegna þess að þá er niðurstaðan orðin nákvæmlega eins og tillagan sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fluttum hér 1992 eða 1993. (Gripið fram í: Saman í flokki.) Þá vorum við saman í flokki, já, og fluttum þá tillögu. Ég tel að þó svo að árangur hafi orðið af þeirri reglu sem er í gangi núna, þá segi niðurstöðurnar okkar samt það að það er einungis hluti af þeim afla sem kemur í land núna, af þeim afla sem hent er í sjóinn samkvæmt þeim könnunum sem hafa verið gerðar. Það vantar býsna mikið upp á að hann skili sér í land. Ég tel að það sé galli á fyrirkomulaginu og hef þá gagnrýni áfram uppi, að ekki skuli vera ákveðið verð á þeim afla sem landað er út frá nákvæmlega þeim markmiðum sem hv. þm. fór hér yfir, þ.e. að menn tapi ekki á því að koma með fiskinn í land ef hann er kominn inn fyrir borðstokkinn en geti ekki grætt á því að gera út á slíkar veiðar. Og það gerist ekki með því að hafa bara 20% af aflaverðmætinu til skipta. Þetta verður að gerast með því að ákveða fyrir hverja tegund fyrir sig og með því að skoða stöðuna á hverjum tíma. Og þetta á bara að gera með reglugerð í ráðuneytinu.