Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:54:56 (1483)

2003-11-11 15:54:56# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ósammála hæstv. forseta um að enn sé bráðabirgðatímabil, þ.e. þetta bráðabirgðaákvæði sem er í gildi núna er búið að framlengja einu sinni. Ég tel að kominn sé tími til þess að fara yfir málið með það fyrir augum að athuga hvort rétt sé að málum staðið og skoða það t.d. hvort verðlagningin sé eðlileg og hvort ekki sé betra að hafa hana með öðrum hætti. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um það fyrr í dag.

Ég spurði líka hvernig ætti að nýta peningana. Ég spyr nú hæstv. sjútvrh. hvort hann sé tilbúinn með drög að skipulagsskrá til þess að leggja fyrir sjútvn. þannig að menn geti skoðað þetta líka þar. Mér finnst mjög eðlilegt að það verði gert þannig að menn geti áttað sig á því hvernig eigi að nota þessa fjármuni og hvernig eigi að stjórna notkuninni á þeim.

Ég vil líka vekja athygli á því, vegna orðræðu sem fór fram áðan milli hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Jóns Gunnarssonar, að fjármunirnir sem voru settir í hlutafé í Fiskeldi Eyjafjarðar úr þessum peningum vegna ólögmæts sjávarafla áttu allir að renna til rannsókna og eftirlits samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi um það efni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Á grundvelli hvers voru þessir peningar settir í þetta verkefni?

Að lokum spyr ég hæstv. sjútvrh. vegna fyrirspurnarinnar sem ég færði í tal áðan hvort hann sé sáttur við að það skuli liggja fyrir að Fiskistofa hafi ekki upplýsingar undir höndum til að bera saman (Forseti hringir.) þann afla sem landað er á hafnarvog og þann sem vigtaður er á heimavigt.