Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:58:53 (1485)

2003-11-11 15:58:53# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var undarlegt og skrýtið svar. Hæstv. ráðherra er spurður um stjórnsýslu. Ef menn í hans stöðu ætla að réttlæta stjórnsýslu sína með því að peningunum sé vel varið þá er mönnum illa komið á hv. Alþingi. Það er nefnilega ekki nóg að peningunum sé vel varið. Menn þurfa að fara eftir réttum reglum um stjórnsýslu. Hæstv. ráðherra hefði ósköp vel getað sótt eftir heimildum til þess með einhverjum hætti. Hann hefur örugglega haft ágætar hugmyndir til að gera það ef hann hefði viljað halda áfram þessum stuðningi eða hefja stuðning af þessu tagi. Þetta snýst því ekki um það hvort menn séu með eða á móti því að taka þátt í þessu heldur hvaða stjórnsýslu eigi að viðhafa.

En nú kemur hæstv. ráðherra með þessi frv. hingað og ég geri ráð fyrir því að hann telji að með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til sé hægt að gera hluti af þessu tagi, eða hvað? En hann svarar því auðvitað hér á eftir.

Ég ætla að hafa lokaorð mín um fyrirspurnina sem ég hef verið að vefja inn í umræðuna öðru hverju. Það eru mér mikil vonbrigði hvernig standa á að mjög mikilvægum eftirlitsþætti Fiskistofu þegar veita á aðilum í sjávarútvegi traust, þ.e. þannig að þeir sjái sjálfir um að vigta afla inn til sín, endurvigta hann eftir að hann hefur verið vigtaður á hafnarvog. Þá á að standa þannig að eftirlitinu að því sé í rauninni bara kastað á þá sem eiga að vera vigtarmenn á hafnarvogum. Það er auðvitað fráleitt. En svoleiðis er það.