Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:01:49 (1487)

2003-11-11 16:01:49# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Fyrst að því sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan í þessum ræðustól, að fjármunirnir væru að aukast, en væru ekki í hendi. Virðulegi forseti. Það benda allar líkur til þess að þeir fjármunir sem hér hafa sést á blöðum og hafa komist til skila á undanförnum árum, annars vegar í upptöku ólöglegs afla og hins vegar hinum löglega Hafró-afla, minnki ekki á komandi árum. Hæstv. ráðherra taldi að aðlögun sumra útgerðarhátta að því að nýta sér Hafró-regluna væri ekki komin til framkvæmda og menn þyrftu kannski að átta sig á því að þeir gætu nýtt sér regluna. Þar af leiðandi væru kannski líkur á því að það kæmu meiri fjármunir inn eftir þessari 5% reglu á komandi árum. Þessir fjármunir hafa svo sem ekkert verið neitt litlir hingað til. Það er verið að tala um upphæðir sem geta hlaupið á bilinu 200--300 millj. kr. á ári jafnvel. Það er ekkert ólíklegt að Hafró-aflinn fari að gefa innan skamms 200 millj. kr. á ári, jafnvel meira. Hæstv. ráðherra svaraði því miður ekki spurningunni varðandi upptökuaflann áðan, hvort hann væri breytilegur innan þessara 182 millj. kr. á milli ára og hefði farið vaxandi eða minnkandi. Ef við gefum okkur að hann sé 40 millj. kr. er ekkert ólíklegt að við séum að tala um fjármuni sem eru þá svona innan ,,í hendi``, ef maður getur sagt sem svo, upp á kvart milljarð kr., 250 millj. kr., og e.t.v. munu verðmætin aukast á komandi árum.

Þetta eru vissulega miklir fjármunir og um þá þurfa að sjálfsögðu að vera skýrar reglur. Ég heyrði að hæstv. ráðherra tók undir það áðan að það væri sjálfgefið að hafa um þetta skýrar reglur og ljósar, þannig að menn sæju greinilega hvernig væri verið að fara með fjármunina, og ég fagna þeirri yfirlýsingu hans.

Það var líka vikið að því hér áðan, virðulegi forseti, þegar við vorum að tala um vísindarannsóknir og eina stofnun, að það væri eðlilegt að aðrir gætu stundað hér rannsóknir. Ég tek fyllilega undir það og hef verið mikill talsmaður þess á undanförnum árum að fleiri en vísindamenn á Hafrannsóknastofnun fengju að stunda rannsóknir á afmörkuðum verkefnum og gætu sótt m.a. um fjármuni í þennan sjóð sem hér er verið að stofna. Það getur auðveldað að fram fari rannsóknir, m.a. samanburðarrannsóknir, sem styrkja þekkingu okkar á því sem er að gerast í hafinu.

Það er líka ástæða til þess að leiða hugann að því að hafsvæðið kringum Ísland hefur verið að breytast mjög mikið síðustu árin. Það hefur verið mikil hlýnun í hafinu. Sjávarhiti hefur hækkað mjög og útbreiðslusvæði hlýsjávarins hefur aukist mikið. Það hefur í för með sér að fisktegundir sem áður voru lítt þekktar fyrir vestan og norðan land eru nú farnar að sjást þar, jafnvel veiðast þar í þó nokkrum mæli, og ég hugsa að það hafi kannski vakið einna mesta undrun manna þegar skötuselur fór að veiðast norður í Ísafjarðardjúpi og víðar, þar sem slík tegund hafði ekki sést svo menn ræki minni til.

Sama má segja um útbreiðslu ýsunnar sem er orðin útbreidd allt í kringum landið, einnig á Norður- og Norðausturlandi þar sem hefur jafnan verið kaldasti sjórinn hér við land. Þar eru uppvaxtarskilyrði fyrir ýsu nú mjög góð, enda bendir allt til þess að ýsan sé mjög dreifð við landið og mikið sé að vaxa upp af ýsu vegna þeirra skilyrða sem batnað hafa, m.a. ástand sjávar.

Í lífríki sjávar eru bæði kostir og gallar, hlýnandi sjór hefur í för með sér að loðnan fer lengra frá landinu. Það er mjög líklegt að þorskurinn leiti líka lengra frá landi og norðar. Þannig að það eru ekki bara plúsar í þessu dæmi, virðulegi forseti. Þetta getur vissulega haft áhrif á okkar verðmætustu tegund, þorskstofninn, og hvað um hann verður. Þannig að við kunnum að upplifa sveiflur í því hvaða þorskmagn er hér innan lögsögunnar á hverjum tíma. Ég er hræddur um að á komandi árum komist vísindamenn ekki upp með það að halda því fram að íslenska fiskveiðilögsagan sé fiskabúr fyrir þorsk sem haldi honum innan lögsögunnar. Það held ég að verði ekki staðreyndin ef sjór heldur áfram að vera hlýr við landið.

Þess vegna gæti vissulega komið upp sú staða aftur, virðulegi forseti, eins og árin 2001 og 2002, þegar týndust úr þorskstofninum 460 þús. tonn á tveimur árum. Þorskstofninn sem var metinn árið 2000, að mig minnir, upp á 1 millj. 35 þús. tonn reyndist í spá sömu stofnunar vera kominn niður í 575 þús. tonn tveimur árum síðar. Menn hafa ekki getað gefið viðunandi skýringar á orsökum þessa hruns, virðulegi forseti. Það hafa verið leiddar fram líkur sem geta að mínu viti ekki skýrt þessa geysilega miklu sveiflu, tæp 500 þús. tonn.

Það er vissulega svo að við getum setið uppi með miklar breytingar í lífríkinu og getum þurft að horfa á breytingar bæði til góðs og kannski ekki beinlínis til ills varðandi það að þorskurinn leiti meira norður í höf, það kann að vera að vaxtarskilyrði hans verði ágæt þar, en það er ekki sjálfgefið, virðulegi forseti, að hann sé innan okkar lögsögu. Það er því að mörgu að hyggja varðandi þetta.

Virðulegur forseti, þskj. 242 er svar við fyrirspurn. Þar er m.a. spurt um flokkun aflans. Þar er í svari sagt, með leyfi forseta, að ,,ekki er lengur í opinberri söfnun upplýsinga um afla gert ráð fyrir söfnun og skráningu upplýsinga um stærðarflokkun afla.`` Nú vill svo til að Hafró-aflinn er allur seldur á fiskmarkaði og ætti þar að vera seldur eftir sölukerfi fiskmarkaðanna. Þar af leiðandi ætti að liggja fyrir ákveðin flokkun á þeim afla sem þar er seldur. Þess vegna finnst mér, miðað við spurninguna, að það hefði átt að vera hægt að gefa upplýsingar um þann afla sem hefur verið flokkaður sem Hafró-afli, enda er það skylda að selja hann á viðurkenndum uppboðsmörkuðum. Þar af leiðandi hefði átt að liggja fyrir einhver flokkun á stærð og gæðum viðkomandi tegundar. Alla vega ætti það að endurspeglast í verðinu og væri fróðlegt að skoða hvernig það kæmi út ef þær upplýsingar væru unnar.

Varðandi þskj. 241 um veiði uppsjávarveiðiskipanna, vekur það athygli, virðulegur forseti, að það er í raun og veru bara eitt uppsjávarveiðiskip sem er að landa hér einhverjum afla sem meðafla með síld innan lögsögu, það er Ingunn frá Akranesi sem er að landa í nokkur skipti þorski og ýsu sem meðafla með síld. Önnur skip virðast ekki vera að landa neinum meðafla sem slíkum. Það vekur þó nokkrar spurningar. Að vísu hefur Ásgrímur Halldórsson veitt þarna 234 tonn af spærling og hefur verið skráð sem spærlingsafli og ekki gert ráð fyrir honum, enda er hann ekki innan kvótakerfisins, þannig að hann er ekki dreginn frá sem slíkur.

Það er því mjög margt forvitnilegt í þessum svörum sem hægt er að velta fyrir sér, virðulegur forseti, og ég hvet þingmenn enn og aftur til þess að kíkja á þessar upplýsingar, þær geta gagnast okkur vel við að átta okkur á því hvert kvótakerfið er að fara með okkur. Það þekkja allir skoðanir mínar á því og míns flokks og ég þarf ekki að endurtaka þær hér.