Styrktarsjóður námsmanna

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:23:53 (1491)

2003-11-11 16:23:53# 130. lþ. 24.12 fundur 133. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um styrktarsjóð námsmanna sem ég flyt hér ásamt hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur og Magnúsi Stefánssyni. Þetta er í þriðja sinn sem mælt er fyrir þessu frv. Í fyrri tvö skiptin hafa örlög þess orðið þau að daga uppi í nefnd og reyni ég nú í þriðja sinn, enda hef ég trú á að efnislega sé þetta hið mætasta frv.

Markmið frumvarpsins, frú forseti, er í rauninni mjög einfalt. Það er að reyna að ná meira fjármagni til menntunar í okkar landi frá ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum í landinu og einstaklingum, og er það hugsað með framlagi þessara aðila í svokallaðan styrktarsjóð námsmanna. Slíkir styrktarsjóðir eru þekktir víða í nágrannalöndum okkar, einmitt með því fyrirkomulagi sem ég kynnti hér þar sem opinberir aðilar og ekki síður einkaaðilar leggja fjármuni til þess að styrkja námsfólk með ýmsum hætti. Það getur verið óskilyrt framlag frá einkageiranum, það geta líka verið skilyrt framlög þar sem t.d. fyrirtæki vilja fjárfesta í efnilegum nemanda á einhverju tilteknu sviði. Þá er það þekkt að margir einstaklingar vilja leggja fé til þess að styrkja æsku landsins og leggja sitt af mörkum þá til þess að efla og hækka menntunarstig þjóðarinnar.

Eins og við vitum, frú forseti, hefur í sjálfu sér ekki mikið fjármagn runnið til menntamála frá einkageiranum og með frv. er í rauninni verið að skapa vettvang fyrir einkafjármagnið til þess að renna í menntunina í gegnum styrktarsjóðinn.

Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir sjö manna stjórn þar sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, eins og oft er kallað, eiga sæti ásamt fulltrúum hinna ýmsu námsmannahreyfinga eins og getið er um á þskj. 133. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn starfi alveg sjálfstætt og taki sínar sjálfstæðu ákvarðanir en rétt er að geta þess að samkvæmt 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki fái skattafslátt gegn því að leggja fram fjármuni í þennan styrktarsjóð, enda litið svo á að þar sé um afskaplega góða og mikilvæga fjárfestingu að ræða.

Í þau fyrri skipti sem frv. var vísað til nefndar var það sent út til umsagnar og umsagnir bárust frá nokkuð mörgum aðilum. Með einni undantekningu, þ.e. frá Verslunarráði Íslands, var mjög eindregið mælt með samþykkt frv. Ef til vill voru skiptar skoðanir, sumum fannst að stjórnarmenn ættu að vera færri, öðrum fannst að þeir ættu að vera fleiri. Það er eins og gengur og má endalaust deila um það. Meginatriðið var samt að allir umsagnaraðilar hvöttu mjög til þess að þetta frv. yrði að lögum og ekki síst námsmenn sjá möguleika á því að aukið fjármagn verði lagt í pottinn til menntunar.

Þetta er sem sagt einfalt frv. Það er gert ráð fyrir því að ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar geti lagt fjármagn í styrktarsjóð námsmanna þar sem efnilegt námsfólk, eða námsfólk yfir höfuð, á þess kost að sækja um styrki en ekki lán til þess að stunda nám. Rétt er að vekja athygli á því að hér er ekki einungis verið að tala um styrki til háskólanáms heldur ekkert síður til náms á framhaldsskólastigi.

Um þetta þarf ekki að fjölyrða, frú forseti, og að svo mæltu leyfi ég mér að óska eftir því að málinu verði vísað til hv. menntmn.