Sýkingarhætta á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:34:00 (1531)

2003-11-12 14:34:00# 130. lþ. 26.4 fundur 159. mál: #A sýkingarhætta á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Sem kunnugt er vakti sóttvarnalæknir nýlega athygli á því í grein að sýkingar á sjúkrahúsum séu vandamál sem taka þurfi mikið tillit til og athygli manna víða um heim hafi beinst að mikilvægi þess að hönnun sjúkrastofnana taki tillit til sýkinganna.

Sem kunnugt er hefur um tíma verið unnið að undirbúningi byggingar fyrir Landspítala -- háskólasjúkrahús allt frá því að fyrrv. heilbrrh. tók ákvörðun um hvar uppbygging þeirrar stofnunar skyldi fara fram á komandi árum. Síðan hefur verið unnið að því máli, bæði frumskipulagningu og viðræðum við Reykjavíkurborg og ég vona að niðurstaða liggi fyrir innan tíðar.

Ráðuneytinu er ljóst að þegar til hönnunar nýrra bygginga Landspítalans kemur þarf að taka fullt tillit til sýkingavarna og ráðuneytinu er vel kunnugt um þá erfiðleika sem geta skapast hérlendis eða erlendis þegar sýkingar herja á sjúkrastofnanir. Að frumkvæði stjórnvalda hefur verið gert átak til að bæta aðstöðu til sýkingavarna innan Landspítalans vegna alvarlegra atburða af völdum sýkla, svo sem bráðalungnabólgu og annarra þvílíkra ógna. Einangrunaraðstaða hefur verið bætt og Landspítalinn hefur gert ítarlega áætlun um með hvaða hætti verður hægt að bæta sýkingavarnir enn frekar ef alvarleg farsótt gengur yfir.

Ljóst er að margt þarf að gera til að draga úr smithættu í núverandi húsnæði því að nýbygging Landspítalans er langtímaverkefni. Þegar nefndin sem nú starfar skilar áliti þá liggur fyrir ákvörðun um hvort eða hvenær ráðist verður í byggingu nýs spítala. Ákvarðanir um það hafa ekki verið teknar enn en frumundirbúningur verið í gangi, eins og ég gat um.

Hv. þm. hefur einnig spurt hvernig ég hyggist bregðast við ábendingum um að auknar sýkingar megi rekja til aðstöðu á spítalanum.

Í grein yfirlæknisins sem vísað er til í tímariti lækna er tekið fram að það hafi ekki verið kannað, og segir svo, með leyfi forseta:

,,Hvort samhengi er á milli þess að faröldrum á stofnuninni fjölgar á sama tíma og umsetning sjúklinga eykst skal ósagt látið þó vissulega sé freistandi að tengja þessa atburði saman.``

Í tímaritsgreininni segir líka, með leyfi forseta:

,,Í framangreindri könnun var ekki sérstaklega kannaður fjöldi handlauga fyrir sjúklinga, starfsfólk eða gesti sjúkrahússins.``

Það er því misskilningur að hér hafi verið kannað sérstaklega smit og smitsjúkdómar. Könnun var gerð meðal sviðsstjóra á lokun deilda og hvernig sjúklingunum var fyrir komið. Könnunin var óformleg, eins og höfundur segir, en brýnt í ljósi þeirra spítalasýkinga sem upp hafa komið að kanna sérstaklega sýkingar og kortleggja ástæður þeirra til að geta gripið til aðgerða.

Ég hef fengið álit sóttvarnaráðs á viðkomandi blaðagrein yfirlæknis smitsjúkdómadeildar og hefur það bent á þætti sem bæta má. Sóttvarnaráð hvetur til að skráning spítalasýkinga verði stórbætt og slík skráning sé nauðsynleg á öllum sjúkrastofnunum til að unnt sé að fylgjast með tíðni spítalasýkinga og árangri sýkingavarna. Á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er starfandi sýkingavarnadeild og sýkingavarnanefnd og þarf að efla starfsemi þeirra.

Síðan endurtek ég það sem áður er sagt að þegar til framtíðar er horft þarf að taka sterklega mið af sýkingavarnasjónarmiðum við hönnun og byggingu spítala, jafnt Landspítala sem annarra stofnana.

Hv. þm. spyr einnig hvort nánar verði kannaður kostnaður við spítalasýkingar.

Viðamiklar rannsóknir hafa farið fram erlendis sem gefa ákveðnar vísbendingar um kostnað sem hlýst af þessu. Þannig er talið að umframkostnaður við hvert tilfelli af spítalasýkingu geti numið að meðaltali um 1 millj. kr. en allt að þrefaldri þeirri upphæð við blóðsýkingar og við sýkingar af völdum fjölónæmra klasakokka. Til að unnt sé að kanna þetta mál nánar þarf að bæta skráningu spítalasýkinga. Að tillögu sóttvarnalæknis hefur sóttvarnaráð mælt með því að spítalasýkingar og sýkingar af völdum fjölónæmra sýkla verði gerðar skráningarskyldar og eru tillögur um slíkt væntanlegar frá sóttvarnalækni til ráðuneytisins innan skamms tíma. Á slíkum upplýsingum verður að byggja mat á kostnaði við afleiðingar sýkinganna og kostnað við varnirnar.

Eins og hefur komið fram á undanförnum árum hefur stöku sinnum þurft að bregðast við sýkingum á sjúkrastofnunum. Er þetta yfirleitt vegna iðrasýkinga eða fjölónæmra sýkla. Ef iðrasýking kemur upp á sjúkrahúsi getur þurft að loka í u.þ.b. vikutíma á meðan sótthreinsun stendur yfir. Hefur þurft að loka tímabundið nokkrum deildum á Landspítala og fleiri sjúkrahúsum á undanförnum missirum vegna þessa.

Að lokum spyr hv. þm. hve mörg sýkingartilvik landlæknir hafi metið sem alvarleg á sjúkrahúsum síðustu árin. Ég get upplýst að landlækni hafa ekki borist tilkynningar um spítalasýkingar (Forseti hringir.) með kerfisbundnum hætti undanfarin ár, en ef litið er til þeirra tilkynninga sem berast í gegnum kvartanaskrár og kæruskrár embættisins (Forseti hringir.) á árunum 1997--2002 þá hafa borist 17 slík erindi og að mati landlæknis voru 11 þeirra alvarlegs eðlis.

Ég lýk máli mínu að sinni en mun koma nánar að þessu í síðari ræðu minni.