Sýkingarhætta á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:41:09 (1533)

2003-11-12 14:41:09# 130. lþ. 26.4 fundur 159. mál: #A sýkingarhætta á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er vakið máls á stórum vanda sem sjúkrahús eiga við að etja víða og sérstaklega sjúkrahús sem eru rekin í gömlum byggingum. Þess vegna er hér varpað fram þeirri spurningu hvort ráðherra taki undir skoðun sóttvarnalæknis um að byggja þurfi nýjan Landspítala. Ég er ekki frá því að þess þurfi. Við erum með mjög gamlar byggingar og erlendis hefur það verið viðtekið að þegar spítalabyggingar eru orðnar eins gamlar og margar byggingar Landspítalans eru sé varla hægt að komast hjá sýkingum. Ekki er hægt að drepa allar þær bakteríur niður sem grassera á slíkum stofnunum og sérstaklega jafnvel á skurðstofum.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann ekki á þeirri skoðun að það þurfi að fara að setja allan Landspítalann undir eitt þak? Því að eins og hann er orðinn í dag er hann sannkallað völundarhús og varla mun hann lagast við það að viðbótarbyggingar komi fyrir sunnan Hringbrautina.