Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:07:13 (1544)

2003-11-12 15:07:13# 130. lþ. 26.3 fundur 119. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að á fundi fjárln. kom fram hjá fulltrúa ráðuneytisins að ekki væri búið að taka ákvörðun um hvar þessi stofnun ætti að vera. Þegar Landspítalinn ákvað að leggja niður vistheimilið í Gunnarsholti voru lögð þar niður 25 pláss. Komið hefur fram að innskráðir þangað á þessu ári hafi aðeins verið níu þannig að ég tel að það hafi verið farið afar illa með fjármuni Landspítalans varðandi Gunnarsholtshælið á þessum tíma.

Ég vil líka minna á þáltill. sem hv. fyrrv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason var með á síðasta þingi um meðferðardeild fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn sem ætti að fara mjög vel saman við starfsemina sem er á Sogni. Starfsfólkið þar kann mjög til verka, þar er gott umhverfi og ég er alveg sannfærð um að það er ódýrari lausn að byggja upp stofnun á einum stað frekar en koma upp dýrum stofnunum á tveimur stöðum.