Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:10:02 (1546)

2003-11-12 15:10:02# 130. lþ. 26.3 fundur 119. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ekki er nokkrum vafa undirorpið að það er mikil þörf fyrir lokaða öryggisdeild fyrir fullorðna geðsjúka og í dag er tilhneiging til þess að dæma geðsjúka eða geðfatlaða einstaklinga ósakhæfa eingöngu til þess að fá afplánun á öruggum stað og í faglegri meðferð og úr þessu þarf auðvitað að bæta. Ég tel að eins og verið er að styrkja Landspítala -- háskólasjúkrahús og þá sérhæfingu sem þar er, þá megi einnig tala um sérhæfingu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu við sakhæfa og ósakhæfa geðsjúka einstaklinga og þar eigum við því að halda áfram að styrkja það svið geðheilbrigðisþjónustunnar, á Sogni, í Gunnarsholti, við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi og á Litla-Hrauni. Þetta er sérhæfing og við eigum ekki í þessu tilfelli að vera að dreifa henni og setja hana í Arnarholt undir geðsvið LSH. Þar er ástæða til að koma annarri þjónustu fyrir.