Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:13:32 (1548)

2003-11-12 15:13:32# 130. lþ. 26.3 fundur 119. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég er hræddur um að hér sé einhver misskilningur á ferðinni. Ég hef beðið Landspítala -- háskólasjúkrahús um tillögur um hvernig þeir geti rekið þessa deild innan sinna vébanda. Mér dettur ekki í hug að þeir taki ákvörðun um staðsetningu þessarar deildar. Ef þeir treysta sér til að reka þessa deild gera þeir það, í Arnarholti eða í einhverju öðru húsnæði sem þeir telja henta undir það. En ég vil undirstrika það að þetta felur ekki í sér neina ákvörðun um að leggja niður réttargeðdeildina á Sogni. Þetta er ekki réttargeðgeild sem við erum að koma upp þarna. Þetta er lokuð öryggisgeðdeild fyrir þá aðila í samfélaginu sem hafa ekki brotið af sér en eru hættulegir sjálfum sér og öðrum og það þarf ekki að rekja þá umræðu sem farið hefur fram í samfélaginu um það.

Réttargeðdeildin á Sogni hefur mikilvægt hlutverk í samfélaginu og það eru engin áform um að leggja hana niður. Við þurfum að leita að nýju hlutverki fyrir Gunnarsholt og það starf stendur yfir í ráðuneytinu. Ýmsir aðilar hafa sýnt áhuga á að reka þar starfsemi á meðferðar- eða umönnunarsviði og það þarf að komast að niðurstöðu í því máli.

En það að við tókum ákvörðun um að fá tillögur frá Landspítalnum um þetta mál byggðist á ráðgjöf fagmanna til mín og ég tel að málið sé það alvarlegt að ég verði að taka mark á þeirri ráðgjöf. En ég tek það fram að hér er ekki verið að kljúfa réttargeðdeildina á Sogni. Þetta er önnur stofnun sem þarna er um að ræða.