Heilsugæsla á Suðurlandi

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:32:03 (1557)

2003-11-12 15:32:03# 130. lþ. 26.7 fundur 232. mál: #A heilsugæsla á Suðurlandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Allt frá setningu laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi árið 1974 hefur ráðherra haft heimild til að framkvæma ákveðnar skipulagsbreytingar sem tengjast heilbrigðisstofnunum. Þar má nefna skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi, einnig sameiningu sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu. Fyrsta breytingin sem varð í þessa veru var sameining heilsugæslustöðva í Reykjavík en þær voru felldar undir eina stjórn fyrir alllöngu síðan.

Annar stór áfangi í sameiningarmálum var þegar samreknar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús víða um land voru sameinuð í svokallaðar heilbrigðisstofnanir fyrir tæpum áratug, þ.e. felldar undir eina stjórn. Og áframhaldandi sameining heilbrigðisstofnana hefur síðan átt sér stað. Sameining heilbrigðisstofnana Austurlands sameinaði sjö stofnanir sem reyndar höfðu skömmu áður verið tíu stofnanir með níu stjórnum. Sameining heilsugæslu í Rangárþingi sameinaði tvær heilsugæslustöðvar og það var gert með reglugerð árið 1998 af forvera mínum í embætti. Heilsugæsla Seltjarnarness, í Reykjavík, Kópavogi og Mosfellsbæ hefur verið rekin af einni framkvæmdastjórn um nokkurt skeið.

Það má fullyrða að reynsla af þessari sameiningu hefur verið mjög jákvæð. Hún hefur leitt til styrkingar á heilbrigðisþjónustu heima í héraði, hefur samþætt mönnun og samvinnu milli stofnana og staða og víða aukið á stoðþjónustu. Sameining rekstrarþátta hefur einnig orðið möguleg og ýmsir rekstrarþættir hafa færst héðan frá Reykjavík og heim í hérað sem ég tel ótvírætt mikinn kost. Við þessar sameiningar hafa skapast öflugri rekstrareiningar og stofnanir sem sjálfar ráða yfir stærri og þyngri málum en áður var þegar tiltölulega lítil vandamál leiddu af sér að sífellt var sótt til ráðuneytisins um úrlausn þeirra mála.

Í ljósi þessarar jákvæðu reynslu hef ég unnið á þessum nótum. Almennur upplýsingafundur var haldinn haustið 1999 á Selfossi þar sem þessi mál voru rædd og reynsla af öðrum landsvæðum kynnt. Þó varð ekki frekar úr þessum áformum á þeim tíma.

Í ljósi þessa sem ég hef nú sagt ákvað ég að fela starfsfólki ráðuneytisins að vinna að frekari sameiningu á Suðurlandi þar sem eru nú sjö heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar, sem sumar hverjar eru með minnstu rekstrareiningum í heilbrigðisþjónustunni hér á landi. Voru áform þessi kynnt öllum viðkomandi stofnunum bréflega um mitt sl. sumar, einnig öllum viðkomandi sveitarfélögum og samtökum sveitarfélaga, þó að nýlegar lagabreytingar hafi numið á brott kvaðir um slíkt samráð. Svör bárust frá flestum umsagnaraðilum sem lögðu ríka áherslu á að halda þeirri þjónustu sem íbúunum býðst og lýstu sumir þeirra ótta sínum yfir að sameining af þessu tagi gæti leitt til versnandi þjónustu. Slíkt hefur þó engan veginn orðið reynslan frá þeim landsvæðum þar sem sameining af þessu tagi hefur átt sér stað.

Í framhaldinu boðaði ráðuneytið til funda á Suðurlandi í september sl. og var fundað á öllum þessum heilbrigðisstofnunum. Til fundanna voru boðnir bæði fulltrúar sveitarstjórna og þeir starfsmenn hverrar stöðvar sem mynda svokallað framkvæmdaráð stofnunarinnar, þ.e. framkvæmdastjóri, yfirlæknir og hjúkrunarforstjóri. Var fundað á öllum stöðum og var mæting mjög góð. Samtals komu um 45 manns á fundina auk fulltrúa frá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga. Á fundunum var rakinn aðdragandi að þessum áætlunum, reynsla af öðrum svæðum, greint frá lagaumhverfi og þeim breytingum sem nýlega höfðu orðið að lögum. Tóku margir sveitarstjórnarmenn það upp að fyrra bragði að nýlega hefði áðurnefnd lagabreyting skerpt á mörkum ríkis og sveitarfélaga og því ekki óeðlilegt að taka fullt tillit til þessara breytinga.

Þá má þess geta að við sameiningu þessara sjö heilbrigðisstofnana á Suðurlandi yrði til öflug stofnun sem miðað við núverandi fjárlög hefðu á tólfta hundrað millj. kr. til ráðstöfunar og hefði að mínu mati gjörbreyttar og bættar forsendur til að takast á við þau verkefni sem þessum stofnunum eru í dag falið. Slíkt hefur tvímælalaust orðið reynsla af öðrum landsvæðum.

Hv. þm. spyr að lokum um afstöðu mína gagnvart því að flytja umsjón heilsugæslunnar yfir til sveitarfélaga. Ég hef áður lýst því yfir í ræðu og riti að ég telji rétt að skoða flutning heilsugæslu öldrunarmála til sveitarfélaga. Ég veit jafnframt að slíkar hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni en ég tel að efling sveitarstjórnarstigsins með færri, stærri og öflugri sveitarfélögum geti skapað forsendur sem gefa tilefni til að kanna þetta mál af fullri alvöru. Mér er ljóst að slíkt tekur alllangan tíma, tengist flókinni og tímafrekri vinnu á vegum annarra ráðuneyta en ég tel ekki ástæðu til að það standi í vegi fyrir stjórnsýsluaðgerðum ráðuneytisins á meðan málaflokkurinn er á þess hendi.