Heilsugæsla á Suðurlandi

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:38:44 (1559)

2003-11-12 15:38:44# 130. lþ. 26.7 fundur 232. mál: #A heilsugæsla á Suðurlandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég dreg alls ekki í efa að ráðherra hafi haft allar heimildir til þess að standa að málum eins og gert var á Suðurlandi, að breyta rekstrarfyrirkomulaginu og færa stjórn heilsugæslustöðva undir einn hatt, sem sagt hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Og eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að leggja mat á það, hef ekki til þess forsendur, hvort mikil hagkvæmni næst fram og betri rekstur með því rekstrarfyrirkomulagi. Ég veit líka að ráðherra þarf ekki, lögum samkvæmt, að hafa samráð við sveitarstjórnir eða starfsfólk á þessum stöðvum. Hins vegar er það jafnljóst að á fundum þingmanna í Suðurk. þar sem við heimsóttum öll sveitarfélögin á Suðurlandi kom í ljós að bréf hafði borist og þessi ákvörðun ráðherra kom þeim algjörlega í opna skjöldu. Þeir höfðu reiknað með því að kynningarfundurinn sem var í haust væri aðeins byrjunin og það yrði farið í viðræður við sveitarfélögin, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lýst, eins og hann gerði hér áðan, þeirri skoðun sinni að það beri að athuga hvort sveitarfélögin taki ekki að sér rekstur heilsugæslustöðvanna.

Ef sameining verður nú ekki á öllu Suðurlandi og verði skipt svæði þar, kannski tvö til þrjú sveitarfélög þegar búið er að ganga aðeins lengra í sameiningu en nú er, má jafnframt reikna með því að heilsugæslusvæðin yrðu af sömu stærðargráðu. Ætlar þá hæstv. ráðherra að stíga skrefið til baka og skipta aftur upp í ný sveitarfélög? Það er stundum í þessu ráðuneyti eins og vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri er að gera.