Heilsugæsla á Suðurlandi

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:40:41 (1560)

2003-11-12 15:40:41# 130. lþ. 26.7 fundur 232. mál: #A heilsugæsla á Suðurlandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Það var unnið þannig að þessu máli að ég fól starfsmönnum mínum í ráðuneytinu að fara um Suðurland, kynna þessi mál fyrir sveitarstjórnarmönnum og heilbrigðisstarfsmönnum og það var gert. Það bréf sem fyrirspyrjandi vitnar til var til þess að hefja þetta mál. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að slíkar ákvarðanir ætti ekki að taka nema að undangenginni kynningu og umræðum og það er þá alveg á skjön við þær upplýsingar sem ég hef fengið ef undirtektir hafa verið slæmar. Ég fékk ekki þau skilaboð. Mér er fullkunnugt um að í Þorlákshöfn og Hveragerði höfðu menn efasemdir af eðlilegum ástæðum, voru að velta fyrir sér hvort þjónustan yrði óskert. Ég fullyrði að hún verður óskert. Ég er alveg tilbúinn til að ræða við sveitarstjórnina í Þorlákshöfn um þetta mál og gera ráðstafanir til þess að svo verði.

Varðandi hins vegar flutninginn yfir til sveitarfélaganna --- það er, eins og ég segi, mál sem er unnið í tengslum við áform félmrn. um stækkun sveitarfélaga. Ég er sannfærður um að þótt málið yrði flutt til sveitarfélaganna yrðu þau að vinna saman að þessum miklu verkefnum sem eru öldrunarmálin og heilsugæslan, þ.e. ef niðurstaðan yrði að þau færu þangað yfir sem ég tel rétt. Þetta er nærþjónusta við fólkið.