Mælingar á þrávirkum efnum í hvölum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:55:37 (1566)

2003-11-12 15:55:37# 130. lþ. 26.9 fundur 160. mál: #A mælingar á þrávirkum efnum í hvölum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Meðal markmiða yfirstandandi rannsókna á hrefnu er að kanna magn ýmissa mengunarefna með ítarlegum efnagreiningum á ýmsum vefjum og líffærum. Fyrirliggjandi þekking á þessu sviði hér við land er afar takmörkuð og því um frumrannsóknir að ræða. Meginmarkmið rannsóknanna lýtur að heilsufræði hvalanna en upplýsingarnar munu einnig gagnast við mat á hollustu mismunandi hvalaafurða. Fyrirhugaðar mengunarmælingar ná bæði til lífrænna þrávirkra efna svo sem díoxíðna, PCB-efna, DDT-efna, eldhemjandi efna og margra annarra þrávirkra aðskotaefna auk ólífrænna snefilefna t.d. kvikasilfurs, kadmíums, blýs, arsens, nikkels og kopars.

Fyrir liggja niðurstöður af mælingum á kvikasilfri úr átta sýnum sem tekin voru í sumar en niðurstöður varðandi önnur ólífræn snefilefni liggja væntanlega fyrir snemma á næsta ári. Þá er stefnt að því að niðurstöður varðandi mælingar á lífrænum efnum, díoxín, díoxín-líkum PCB og marker PCB-efnum í rengi liggi fyrir í desember nk. en upplýsingum um lífræn aðskotaefni í öðrum vefjum hrefnunnar verði safnað á næsta ári.

Fyrir skömmu voru gefnar út leiðbeiningar til barnshafandi kvenna og kvenna með börn á brjósti um neyslu sjávarfangs á íslenskum markaði með tilliti til kvikasilfurs. Í leiðbeiningunum er barnhafandi konum sem og öðrum landsmönnum ráðlagt að borða fisk sem oftast eða a.m.k. tvisvar í viku sem aðalmáltíð. Nokkrar undantekningar eru þar á, eins og hrefnukjöt, sem verið hefur á markaði hér á landi, hrefnukjöt frá Noregi aðallega. Þar er mælt með að hrefnukjöts sé neytt tvisvar í viku eða sjaldnar, sem einnig á við um túnfisk í dós og svartfuglsegg. Þessi flokkun hrefnukjöts byggir á upplýsingum um innihald kvikasilfurs í hrefnu sem veidd er við Noreg og hefur verið hér á markaði.

Vegna þessara viðmiðunarreglna, fyrirspurna neytenda og eftirlitsaðila innan lands var mælingum á kvikasilfri hraðað og eins og áður segir liggja nú fyrir fyrstu niðurstöður mælinga á styrk kvikasilfurs í hrefnukjöti hér við land. Meðaltal þeirra mælinga er um 90 míkrógrömm á kílógramm en meðaltal mælinga Norðmanna á kvikasilfri í hrefnu í veiðum þeirra voru 230 míkrógrömm per kílógramm. Þessar niðurstöður lágu því miður ekki fyrir áður en umræddar leiðbeiningar voru gefnar út en samkvæmt þeim er verulegur munur á innihaldi kvikasilfurs í hrefnu sem veidd er við Ísland og við Noreg og leiðbeiningarnar eiga því ekki að öllu leyti við um þá hrefnu sem veidd er við Ísland.