Mælingar á þrávirkum efnum í hvölum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:58:30 (1567)

2003-11-12 15:58:30# 130. lþ. 26.9 fundur 160. mál: #A mælingar á þrávirkum efnum í hvölum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Þetta voru ákaflega fróðlegar upplýsingar sem hæstv. sjútvrh. veitti við fsp. hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég hef oft undrast í umræðum í þinginu þegar borið hefur niður nálægt hvölum og öðrum sjávarspendýrum að ekki skuli hafa verið ráðist í mælingar á þrávirkum lífrænum efnum.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum þegar ég gegndi embætti umhvrh. var drepinn ísbjörn miðja vegu milli Vestfjarða og Grænlands og ýmsar mælingar voru gerðar á honum. Í ljós kom ákaflega hátt hlutfall lífrænna þrávirkra efna. Hinn kaldi sjór og hið kalda umhverfi norðurslóða virkar sem eins konar segull á þessi efni sem berst um loftvegu langt að, safnast fyrir í fæðukeðjunni, flytjast á milli þrepa í fæðukeðjunni og enda í þeim spendýrum sem eru efst í keðjunni. Og þau sem hafa þykkt fitulag eins og bjarndýr og hvalir eru líkleg til að hafa þar ákaflega hátt hlutfall. Kannski ekki hrefnan af því að hún er neðar en ýmsir tannhvalir.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa engar slíkar mælingar verið gerðar á tannhvölum sem eru efst í fæðukeðjunni? Er það fyrirhugað?