Mælingar á þrávirkum efnum í hvölum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 16:01:44 (1569)

2003-11-12 16:01:44# 130. lþ. 26.9 fundur 160. mál: #A mælingar á þrávirkum efnum í hvölum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Ég gleymdi í upphafi svars míns að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina.

En vegna fsp. hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um víðtækari mælingar þá eru fyrirhugaðar mælingar samkvæmt áætlunum okkar á þremur hvalategundum, þ.e. hrefnunni, sandreyði og langreyði. Enn sem komið er hafa hins vegar ekki verið teknar ákvarðanir um vísindaveiðar nema á hrefnunni, og vísindaveiðarnar á hrefnunni ganga að miklu leyti út á það einmitt að staðsetja hrefnuna í fæðukeðjunni. Að hve miklu leyti hrefnan nærist á fiski, á þorski, bolfiski, síld eða loðnu og þar fram eftir götunum, og að hve miklu leyti nærist hún á svifi og því sem er þá neðar í fæðukeðjunni. Þær upplýsingar sem við höfum í dag um hinar tegundirnar, þ.e. langreyði og sandreyði, eru að þær nærist tiltölulega neðarlega í fæðukeðjunni, aðallega á svifi og tiltölulega lítið á fiskmeti. Þetta eru hins vegar tegundir sem staðsetja sig í fæðukeðjunni á breytilegan hátt eftir því hvar þær eru staddar landfræðilega, þannig að breytingar í umhverfi í hafinu gætu leitt til breytinga á staðsetningu þeirra í fæðukeðjunni.

Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þm. að tannhvalir eru að öllu jöfnu staðsettir ofar í fæðukeðjunni. Hins vegar eru ekki fyrirhugaðar rannsóknir á tannhvölum. Það væri þá aðallega um að ræða búrhvali, sem er þeirra stærstur á þessu hafsvæði og ekki hafa verið fyrirhugaðar rannsóknir á tannhvölum neðar í fæðukeðjunni, svokölluðum smáhvölum hér í kringum landið. En það væri vissulega verðugt rannsóknarefni.