Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:32:45 (1696)

2003-11-17 15:32:45# 130. lþ. 28.1 fundur 148#B breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er yfirleitt venjan að ræða þingmál sem fram eru komin þegar þau eru tekin á dagskrá. En hvað sem því líður vil ég gjarnan að það komi fram að það frv. sem hv. þm. gerði að umtalsefni, um breyting á lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er flutt til þess að auka á sveigjanleika í starfsemi ríkisstofnana, gera þær hagkvæmari í rekstri og auðvelda forstöðumönnum að vinna sín störf.

Síðan er spurt: Af hverju var ekki samráð? Ég kallaði forustumenn þessara samtaka, opinberra starfsmanna, á minn fund til þess að gera þeim grein fyrir efni þessa frv. En það er alveg rétt, ég bað ekki um leyfi hjá þeim til þess að fá að flytja það. Það var ríkisstjórnin sem ákvað að þetta mál yrði flutt. Það breytir hins vegar ekki því að við erum í ágætu samstarfi við samtök opinberra starfsmanna um önnur lög, lögin um samningsrétt opinberra starfsmanna, samningsréttarlögin, sem hafa verið til endurskoðunar um nokkra hríð og eðlilegt að talað sé vel saman um þau áður en þau koma fyrir Alþingi þó að auðvitað geti menn ekki afsalað sér þeim rétti sem ríkisstjórn og eftir atvikum þingmenn hafa til að flytja þingmál.

En frv. sem spurt er um liggur frammi sem þingskjal. Það mun koma til umræðu á næstu dögum, vona ég, og þá getum við rætt það betur og ítarlegar hvað efni þess varðar.