Umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:06:53 (1720)

2003-11-17 16:06:53# 130. lþ. 28.93 fundur 156#B umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (um fundarstjórn), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Mörður Árnason:

Forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur vakið athygli á því að ekki einungis varð fundarstjórn forseta hér áðan til þess að koma í veg fyrir að eðlileg umræða af hálfu hv. þm. Helga Hjörvars næði fram að ganga heldur gerðist forseti slíkur að hann í raun og veru blekkti forsrh. til þess að halda aftur af málflutningi sínum vegna þess að hæstv. forsrh. taldi að fyrirspurnin mundi koma til umræðu.

Ég verð nú að segja að þó að ég virði það vissulega og telji að forseti eigi að standa betur í lappirnar með löggjafarvaldinu gagnvart framkvæmdarvaldinu þá er kannski óþarfi að blekkja beinlínis forustumann framkvæmdarvaldsins með lævíslegri fundarstjórn.