Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:42:46 (1927)

2003-11-19 14:42:46# 130. lþ. 31.2 fundur 144. mál: #A flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur beint til mín spurningum sem hann hefur gert grein fyrir. Hann leggur fram spurningarnar í tveimur liðum. Ég kýs að svara þeim í einu lagi og hygg að það skaði ekki málið með neinum hætti. Svar mitt er þetta:

Á undanförnum árum hafa átt sér stað margvíslegar viðræður á milli ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun á verkaskiptingu og flutningi verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga og endurskoðun á tekjuskiptingu milli aðila til samræmis. Veigamesta breytingin í þessa átt var þegar rekstur grunnskólans var alfarið færður til sveitarfélaga árið 1996. Síðan hafa átt sér stað nokkrar aðrar tilfærslur á verkefnum en þær hafa verið smærri í sniðum.

Í janúar 2001 skipaði þáv. félmrh. nefnd sem falið var að skoða hvort æskilegt væri að flytja ákveðin verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Nánar tiltekið var þar um að ræða þátttöku sveitarfélaga í stofnkostnaði sjúkrastofnana og heilsugæslustöðva, þátttöku í stofnkostnaði framhaldsskóla og heimavista og málefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Einnig var nefndinni falið að skoða hvort ástæða væri til að draga úr sameiginlegum verkefnum á ýmsum sviðum. Þar voru sérstaklega nefnd öldrunarmál en einnig önnur verkefni sem enn eru á sameiginlegri ábyrgð ríkis og sveitarfélaga.

Nefndin skilaði áfangaskýrslu í september 2001. Í skýrslunni kemur m.a. fram að stærð sveitarfélaga hér á landi takmarkar á vissan hátt hve langt er hægt að ganga í að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Nefndin taldi því skynsamlegt að mótuð yrði heildarsýn varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þ.e. þá þjónustu sem eðlilegt er að færist yfir til sveitarfélaga að gefnum ákveðnum forsendum um stærð sveitarfélaganna og fleira þess háttar.

Einnig lýsti nefndin þeirri skoðun að eðlilegt væri samtímis á sviðinu að hugað yrði að sameiningu sveitarfélaga þannig að þau yrðu almennt sem best í stakk búin til að takast á við stærri og umfangsmeiri verkefni.

Í samkomulagi um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga frá 4. desember 2002 var gengið frá samkomulagi um að ríkið yfirtaki að öllu leyti stofnkostnað sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Þessi breyting tók síðan gildi með lögum nr. 78/2003, um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu.

Að því er varðar undirbúning að frekari verkefnatilfærslu er rétt að nefna í fyrsta lagi að heilbrrh. hefur ákveðið að skipa nefnd sem er falið að kanna hvaða verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu og þjónustu við aldraða sé mögulegt og æskilegt að flytja frá ríki til sveitarfélaga. Meðal annars er nefndinni ætlað að kanna hvort flytja eigi heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir aðrar en Landspítala -- háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til sveitarfélaganna. Við mat á því hvort flytja eigi þessa þjónustu að hluta eða öllu leyti til sveitarfélaga skal nefndin m.a. líta til þjóðhagslegrar hagkvæmni, gæða þjónustunnar og áhrifa á stöðu og réttindi starfsfólks í heilbrigðisþjónustu.

Í öðru lagi hefur félmrh. skipað verkefnisstjórn sem hefur yfirumsjón með átaki í sameiningu sveitarfélaga. Hefur verkefnisstjórninni m.a. verið falið að leggja fram tillögu til félmrh. um tilflutning verkefna milli ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að treysta sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsforræði byggðarlaganna. Haft verður að leiðarljósi að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýr. Rétt er að taka fram að í þessu getur bæði falist að verkefni flytjist frá ríki til sveitarfélaga og frá sveitarfélögum til ríkisins. Sameiningarátakið mun taka tvö ár og má segja að það verði unnið á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í áfangaskýrslu verkaskiptanefndar og áður hafa verið rakin. Breytingar á verkaskiptingu verða því skoðaðar í nánum tengslum við gerð tillagna um breytta sveitarfélagaskipan hér á landi, en um leið mun nefnd sem félmrh. skipar vinna tillögur um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga eftir þessa breytingu.

Tel ég þá að með þessum orðum sé fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar svarað.