Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:52:19 (1933)

2003-11-19 14:52:19# 130. lþ. 31.2 fundur 144. mál: #A flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir umræðuna og svörin svo og þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna og komið með mörg mjög athyglisverð sjónarmið inn í hana um þetta mikilvæga mál sem lýtur bæði að því hvaða verkefni og þjónusta eiga að vera á höndum sveitarfélaga og hins vegar að tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Um leið og ég fagna því að ýmiss konar vinna er í gangi á vegum ríkisstjórnarinnar um framtíðarskipan þessara mála vil ég ítreka mikilvægi þess og tek undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni um að réttlátlega og sanngjarnt sé skipt á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að þau geti hreinsað upp og losað sig úr þeirri snöru sem mörg eru í til að þau geti tekist á hendur þessi auknu verkefni.

Samfylkingin telur að stíga eigi stærri skref en að því tryggðu að þeim fylgi nægir tekjustofnar og fjármagn til að sinna þeim. Þjónustunni við fólkið er betur komið hjá sveitarfélögum og langtímamarkmið á að vera það að dreifa valdi og færa verkefnin og valdið nær fólkinu í sveitarfélögum landsins. Í því ljósi og þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um stærð sveitarfélaga væri fróðlegt að heyra viðhorf eða skoðun hæstv. forsrh. á því hver lágmarksstærð sveitarfélaganna þarf að vera til að þau séu í stakk búin til að taka við verkefnum af þessu tagi af því að við blasir að aukin verkefni verða ekki færð til sveitarfélaganna í neinum mæli nema þeim fækki verulega og þau stækki þannig að þau verði þess umkomin að taka við auknum verkefnum.