Menningarmál á Vesturlandi

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:11:08 (1969)

2003-11-19 18:11:08# 130. lþ. 31.7 fundur 149. mál: #A menningarmál á Vesturlandi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Á sl. árum hefur farið fram mikil uppbygging á menningarstöðum á Vesturlandi og hefur ríkissjóður lagt verulegt fé til þeirrar uppbyggingar. Má nefna að umsvif Snorrastofu í Reykholti eru mikil og þar hefur gestafjöldi vaxið hröðum skrefum. Einnig má nefna Eiríksstaði í þessu sambandi en þar hefur mikil uppbygging átt sér stað.

Menntmrn. hefur haft í hyggju að tengja þessa staði, og hugsanlega fleiri, fyrirhuguðum menningarsamningi við sveitarfélög á Vesturlandi en undirbúningur að gerð samningsins hefur staðið frá 2001 eins og kom réttilega fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Frá þeim tíma hefur verið unnin skýrsla um menningarmál á Vesturlandi og lögð hafa verið fram bráðabirgðadrög að samningi. Fulltrúar ráðuneytisins og sveitarfélaga á Vesturlandi hafa undanfarin missiri unnið að gerð menningarsamnings við Vesturland. Fyrir liggur nú sú áhersla hjá menntmrn. að fjárframlag sveitarfélaganna yrði jafnmikið og það fé sem ríkissjóður leggur fram í tengslum við samninginn.

Fulltrúar sveitarfélaganna á Vesturlandi hafa hins vegar vísað til menningarsamnings sem gerður var við sveitarfélögin á Austurlandi sem fordæmis. Í ráðuneytinu stendur nú yfir vinna við að meta áhrif þess samnings, þ.e. samningsins sem gerður var við sveitarfélögin á Austurlandi á sínum tíma. Þótt sá samningur hafi ýmsa kosti eru einnig á honum meinbugir sem óhjákvæmilegt er að taka tillit til þegar horft er til framtíðar. Á meðan sú vinna stendur yfir og þar til niðurstöður á því mati liggja fyrir mun ráðuneytið ekki standa að gerð sambærilegra samninga annars staðar á landinu.