Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:17:12 (2238)

2003-11-27 15:17:12# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, Frsm. BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973, frá allshn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjalta Zóphóníasson og Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Sigurð Ágúst Sigurðsson og Guðmund Ibsen frá Happdrætti DAS, Brynjólf Sigurðsson frá Happdrætti Háskóla Íslands, Davíð Gunnarsson frá stúdentaráði Háskóla Íslands, Pétur Bjarnason og Hauk Þórðarson frá Happdrætti SÍBS og loks Sigurbjörn Gunnarsson frá Íslenskri getspá. Umsagnir bárust um málið frá Háskóla Íslands, Happdrætti Háskóla Íslands, Happdrætti SÍBS, Happdrætti DAS, stúdentaráði Háskóla Íslands og Íslenskri getspá.

Frumvarpinu er ætlað að endurnýja heimild Happdrættis Háskóla Íslands til rekstrar peningahappdrættis um 15 ár, en Háskóli Íslands hefur haft einkarétt til að reka slíkt happdrætti allt frá árinu 1934 gegn greiðslu 20% einkaleyfisgjalds til ríkissjóðs. Happdrættið stendur undir nánast öllum byggingarframkvæmdum og tækjakaupum Háskóla Íslands.

Við meðferð málsins var athygli nefndarinnar vakin á því að einkaréttur Háskóla Íslands gæti farið gegn markmiðum samkeppnislaga, samanber álit samkeppnisráðs, nr. 4/2000, um að hann gæfi ,,samkeppnislegt forskot gagnvart vöruhappdrættunum`` og torveldaði ,,frjálsa samkeppni á markaðnum``, eins og það var orðað. Jafnframt komu fram ábendingar þess efnis að einkarétturinn kynni að fara í bága við ákvæði 31. og 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið varðandi staðfesturétt og frjálsa þjónustustarfsemi.

Nefndin telur að leysa verði úr því sem fyrst hvort þær athugasemdir sem gerðar voru við einkarétt Háskóla Íslands á rekstri peningahappdrættis eru réttmætar og eiga við rök að styðjast. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að hugað verði að forsendum einkaleyfisgjaldsins. Nefndin hvetur því dómsmálaráðherra til að hraða heildarendurskoðun happdrættislöggjafarinnar í landinu sem mest má verða.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.