Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:39:15 (2241)

2003-11-27 15:39:15# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Út af því sem háskólinn leggur eindregið til, að einkaleyfið verði framlengt, þá vil ég benda á að þeir eru komnir í mótsögn við sjálfa sig miðað við þær yfirlýsingar, viðtöl og fréttir, sem úr þeim herbúðum hafa komið.

Það má auðvitað alltaf deila um talnagetraunir, ég tek undir það með hv. þm. Bjarna Benediktssyni. En hvað er talnagetraun? Má ekki segja að það sé talnagetraun ef menn kaupa sér happdrættismiða með tilteknum tölum sem þeir hafa leitað að? Í talnagetraun tengdri knattspyrnu, í lottói eða hvað það er, kaupa menn miða og velja sér tölur. Þú kaupir þér miða í flokkahappdrætti með ákveðnum tölum á. Það má náttúrlega teygja þetta og toga í allar áttir.

En varðandi þennan happdrættismarkað þá hefur í mörg ár verið umræða um það í dómsmrn. að skoða þetta. Það eru alltaf sömu fréttirnar: Það er verið að skoða þetta. Ég spyr: Hvers vegna gáfu menn sér ekki tíma til að skoða málið í ljósi þeirrar ræðu sem ég vitnaði til, sem hv. menntmrh. flutti 17. júní árið 2001, á 90 ára afmæli Háskóla Íslands? Hvers vegna var þá ekki gripið til þess? Hvers vegna komu þá ekki háskólamenn fram og sögðu: Við viljum losna undan einkaleyfinu, úrskurður Samkeppnisráðs hefur fallið og við skulum ganga í að leggja álögur á alla jafnt? Háskólinn, sem kennir viðskiptasiðfræði, gæti þannig haldið áfram að kenna þær kúnstir með reisn. Þetta er ekki góð viðskiptasiðfræði.