Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:41:19 (2242)

2003-11-27 15:41:19# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, Frsm. BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það liggi ljóst fyrir að þau sjónarmið voru ríkjandi í nefndinni að ekki yrði mikið lengur beðið með að taka þetta mál til endurskoðunar. Ég vil ítreka það sem ég hef í tvígang sagt. Það hafa verið send mjög skýr skilaboð til ráðuneytisins um að hraða þessari heildarendurskoðun. Við umræður um einkaleyfið í nefndinni komu fram ýmis sjónarmið, m.a. var því hreyft hvort einkaleyfið væri e.t.v. ekki þeirra 100 millj. kr. virði sem það skilar til ríkissjóðs. Það getur því vel verið að þegar heildarendurskoðun laganna er lokið og fyrir liggur með hvaða hætti menn ætla að halda áfram að styðja við og styrkja rannsókna- og vísindastarfið, í stað þess að gera það með einkaleyfinu, muni komast á það ástand að einkaleyfið falli niður og Happdrætti Háskóla Íslands geti lifað áfram þrátt fyrir það og haldið áfram að styðja við uppbyggingu og tækjakaup eins og hingað til.

En til þess að hægt verði að fella einkaleyfið niður þurfa öll þessi mál að koma til heildarendurskoðunar. Ég tel óhætt að taka undir það með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að það hefur tekið of langan tíma að fara yfir þessi mál. Þar sem einkaleyfið er að renna út um áramótin og það liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti nein framtíðarsýn um skipan þessara mála telur nefndin að það séu í raun engir aðrir valkostir í stöðunni en að framlengja einkaleyfið enn um sinn.