Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:08:29 (2253)

2003-11-27 16:08:29# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það gengur ekki að menn séu að tala um tvo aðskilda hluti í þessari umræðu, annars vegar talnagetraunir og hins vegar happdrætti. Ég mótmæli því alfarið að með þessari tillögu okkar og áliti sé verið að gera Háskóla Íslands einhvern grikk. Það er einmitt ekki verið að gera háskólanum neinn grikk. Það er verið að ráðast í heildarendurskoðun til þess að gæta annars vegar hagsmuna þeirra sem standa að vöruhappdrættunum og hins vegar Háskóla Íslands.

Að sama skapi leyfi ég mér að mótmæla því sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni að menntamál hér séu í ólestri og fjármagn til þess málaflokks sé ekki nægilegt, eins og hann vék að í sinni ræðu og ég skil nú ekki almennilega hvað hann var að blanda því inn í umræðu um Happdrætti Háskóla Íslands.

En ég vil þá að því sé haldið til haga að við höfum aukið mjög framlög til menntamála á Íslandi t.d. frá árinu 1995, þegar við vörðum 5,2% af vergri þjóðarframleiðslu til menntamála, en framlögin eru nú 6,2% af vergri þjóðarframleiðslu. Að sama skapi hafa framlög til menntamála sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs aukist verulega, eða frá 1990 þegar þau voru innan við 12% af heildarútgjöldum ríkissjóðs en eru nú í kringum 15%. Ég vil bara benda hv. þm. á þessar tölur sem ekki er hægt að rengja. En þessi atriði skipta náttúrlega ekki öllu máli. Við erum hér að fjalla um Happdrætti Háskóla Íslands og ég tek það fram enn og aftur að við í allshn. erum með þessu nál. að hvetja til endurskoðunar til hagsbóta fyrir alla aðila sem að málinu koma.