Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 17:33:53 (2372)

2003-12-02 17:33:53# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og þakka hv. 1. flm. þessara tveggja frumvarpa, hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, fyrir frumkvæði það sem hún hefur sýnt með því að flytja þetta mál. Það eru auðvitað heilmikil tímamót fyrir okkur öll sem erum viðstödd þessa umræðu að hér er verið að ræða um lagasetningu um tungumál, um heilt tungumál, og það gerist ekki á hverjum degi að við fáumst við lagasetningu af því tagi. Við fjöllum oft um mál sem við teljum hvert um sig og í heild að skipti mjög miklu máli, séu stór mál, en ég held að þetta sé þó í fyrsta skipti a.m.k. á mínum tólf ára þingferli að ég er viðstaddur umræðu þar sem við erum í rauninni að kljást við það að búa til lög um tungumál.

Þó að það væri nú ekki nema vegna þessa þá er þetta söguleg stund sem er ákaflega ánægjulegt að vera viðstaddur og líka að fá að taka örlítinn þátt í, þó að mér sé það vel ljóst að miðað við þá þekkingu sem hv. 1. flm. hefur á þessum málaflokki þá geri ég nú ráð fyrir að þrátt fyrir góðan vilja okkar hinna aukum við nú kannski ekki mjög mikið við umræðuna með þátttöku okkar. Engu að síður er mikilvægt að fram komi sjónarmið hv. þingmanna í þessum efnum. Ég vil a.m.k. fyrir mína parta segja að ég fagna mjög þessu frv. og tel það til marks um merkilega framtíðarsýn sem við eigum tvímælalaust að veita verðuga athygli.

Ástæða er til að þakka það frumkvæði sem hv. 1. flm. hefur haft með þessu máli. Ég vil líka ítreka það sem fram hefur komið í máli margra annarra sem talað hafa á undan mér í dag að það hefur auðvitað vakið athygli ekki bara þingmanna sem eru samverkamenn hv. þm. heldur annarra, þjóðarinnar allrar, sá hetjuskapur sem hv. þm. hefur sýnt með því að brjóta ísinn í þessum efnum hér í þinginu. Þetta er mjög mikilvæg forganga sem við viljum svo sannarlega vera þátttakendur í.

Ekki fer á milli mála þegar maður les þessi tvö frumvörp að mikil vinna hefur verið lögð í málið, bæði frumvarpstextann sjálfan og ekki síður greinargerðina, sem að mínu mati skiptir mjög miklu máli vegna þess að óneitanlega er um að ræða málaflokk sem mörg okkar þekkjum ekki allt of vel. Þess vegna er það mjög þýðingarmikið fyrir okkur sem viljum þó kynna okkur málið og gera okkur grein fyrir um hvað það snýst að geta þá leitað slíkra upplýsinga í greinargerðinni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að greinargerðin er grundvöllur að mikilvægri umræðu sem á sér stað hérna í dag og mun auðvitað eiga sér stað á næstunni í framhaldi af því að málið fer til 2. umr.

Aðeins út af því sem hér hefur verið vikið að, að engir þingmenn Sjálfstfl. séu flutningsmenn að þessu máli, vil ég segja að í því felst engin efnisleg afstaða til málsins á annan hvorn veginn heldur var það einfaldlega þannig að eins og málin voru kynnt fyrir okkur reyndist okkur ekki unnt að taka efnislega afstöðu til málsins fyrir þann tíma sem ætlunin var að leggja það fram og það er ástæðan fyrir því að flutningsmenn eru ekki úr hópi þingmanna Sjálfstfl. að málinu.

Ég vil hins vegar taka fram, sem líka hefur komið fram í máli annarra sem hér hafa talað, að þetta mál er auðvitað af því taginu að það er langt og hátt yfir alla flokkapólitík hafið og er þess eðlis að við eigum fyrst og fremst að reyna að vinna það efnislega.

Mér finnst mjög athyglisvert þegar farið er yfir málið og það skoðað í greinargerð sem fylgir með frv. að átta sig á því hversu, þrátt fyrir allt, táknmálið er þó orðið útbreitt í samfélagi okkar.

Í greinargerð frv. segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Táknmál hefur á undanförnum áratug farið að sjást víða í samfélaginu. Má þar nefna grunn- og framhaldsskóla og háskólana sem heyrnarlausir sækja með aðstoð túlka. Táknmálsfréttir eru fluttar í ríkissjónvarpinu í átta mínútur hvern einasta dag. Nýársræða forseta Íslands er túlkuð eftir á. Í lögum um réttindi sjúklinga segir að heyrnarlaus sjúklingur eigi rétt á táknmálstúlki í viðtali við lækni þannig að táknmál sést á heilsugæslustöðum og sjúkrahúsum. Dómur Hæstaréttar nr. 151/1999 kveður á um að síðustu framboðsumræður séu túlkaðar á táknmáli í beinni útsendingu kvöldið fyrir kjördag. Prestur heyrnarlausra, séra Miyako Þórðarson, er viðurkennd sem táknmálsprestur og flytur messur á táknmáli auk þess að vera með táknmálskór. Táknmál sést hér á Alþingi. Nokkuð stór hluti aðalnámskrár grunnskóla fjallar um táknmál. Þetta eru því nokkur dæmi sem sýna að táknmálið er orðið sjálfsagt mál í samfélaginu og mikilvægt að tryggja því það jafnræði sem ætlast er til af því.``

Ég vil líka, virðulegi forseti, aðeins vegna samhengis málsins vekja athygli á því að þetta mál hefur áður að sjálfsögðu komið til umræðu á Alþingi, eins og nefnt hefur verið, m.a. fyrir forgöngu hv. þáv. þm. og fyrrv. menntmrh., Svavars Gestssonar, sem flutti a.m.k. þrisvar sinnum þáltill. sem fól í sér að íslenska táknmálið yrði viðurkennt móðurmál heyrnarlausra.

Tillögugrein hv. þm. var svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa frumvarp til laga um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra hér á landi.``

Í greinargerð þeirrar þáltill. er nokkuð velt vöngum yfir stöðu tungumáls í lagalegum skilningi og er vakin á því athygli að íslenska sé í sjálfu sér ekki viðurkennt móðurmál Íslendinga í lögum eða stjórnarskrá, og það er niðurstaða þess sem greinargerðina ritar, flutningsmanns tillögunnar, að þess gerist ekki þörf þar sem hún sé móðurmálið í raun og enginn dragi það í efa. Þó vakni sú spurning hvort það sé engu að síður rétt að setja lög um móðurmálið eða ákvæði um það í stjórnarskrá.

Síðan segir í greinargerðinni, með leyfi virðulegs forseta:

,,Sérstök lög um íslenska táknmálið sem móðurmál eru hins vegar annars eðlis, þau eru jafnréttismál sem snýst um að tiltekinn hópur hafi rétt á því að taka þátt í öllum athöfnum þjóðfélagsins til jafns við aðra og að hann eigi því rétt á túlkun. Jafnframt væri samfélagið með slíkri lagasetningu að ákveða að mennta túlka og að rannsaka og þróa íslenska táknmálið svo sem nauðsynlegt er.``

Í umræðu sem fram fór um þetta mál á árinu 1998, 10. júní hygg ég, kvaddi sér hljóðs meðal annarra hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, og kom að því máli. Ég tel að mikilvægt sé, líka vegna framhalds málsins, að því sé haldið til haga sem hæstv. forsrh. sagði í þeirri umræðu vegna þess að ég tel að í raun og veru hafi þar komið fram ákveðin afstaða til málsins sem er mikilvægt að til skila komist og til haga sé haldið.

Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. sem hér hafa rætt og undirstrika þann skilning minn að hér sé um þýðingarmikið mál að ræða, hér sé fjallað um réttindamál sem eru þýðingarmikil fyrir tiltekinn hóp í þjóðfélaginu til að gera honum kleift og fært að standa, þrátt fyrir tiltekna hömlun, sem næst jafnfætis þeim sem ekki búa við slíka hömlun. Það er örugglega ríkur vilji til þess hjá þingheimi að gera sitt ýtrasta til að brúa það bil. Við höfum stigið jákvæð skref í þá veru á undanförnum árum. Þau hafa bætt hér úr en engu að síður er það rétt sem þetta frv. byggir á að þar skortir enn töluvert.

Ég tel mikilvægt að menn leiti með jákvæðum huga lausna í þeim anda sem frv. byggir á. Jafnframt þurfum við að hafa það fullkomlega ljóst með hvaða hætti það yrði útfært, áður en endanleg ákvörðun er tekin, hvaða kostnaður þarf að falla til og hvort menn séu tilbúnir að leggja hann fram í allra næstu framtíð. Menn geta ekki leyft sér þann munað að ákveða eingöngu rammann án þess að gera sér grein fyrir útgjöldunum. Ég held reyndar ekki að það búi að baki hjá flm. Hann er hér að leggja drög að bættri réttarstöðu sem ég held að við öll eigum að geta sameinast um að finna flöt á.``

Þetta er í rauninni, virðulegi forseti, kjarni þess máls sem ég hefði viljað flytja. Ég tel að við eigum að leita með jákvæðum huga lausna á málinu sem hér hefur verið undirstrikað í frv. og í anda þess frv. sem hér er byggt á. Ég tel að þetta sé auðvitað mál af því taginu að það þurfi og kalli á heilmikla gerhygli og menn þurfa að fara rækilega og efnislega ofan í málið og ég treysti því að viðeigandi þingnefnd muni gera það. Það er, eins og ég sagði áðan, ekki á hverjum degi sem við erum í þeirri stöðu að ræða um frumvarp sem lýtur að heilu tungumáli, tungumáli með mikla sérstöðu.

Ég hafði eins og mjög margir aðrir fyrir nokkrum árum þá hugsun að táknmálið væri alþjóðlegt mál í eðli sínu en svo er ekki. Það er reyndar undirstrikað bæði í greinargerð og í fskj. sem er grein Svandísar Svavarsdóttur. Þar kemur glögglega fram að þetta tungumál er ekki alþjóðlegt, það er sérstakt, einstakt og sjálfsprottið en um leið er athyglisvert að lesa í grein Svandísar Svavarsdóttur hvernig þetta mál er samt sem áður af því taginu að það er auðveldara í samskiptum fólks með mismunandi tungumálabakgrunn.

Virðulegi forseti. Það er engin þörf af minni hálfu að endurtaka eða orðlengja mál mitt. Ég fagna frv. og fagna því frumkvæði sem hér hefur verið sýnt og tel að taka þurfi efnislega afstöðu til málsins.