Sjóntækjafræðingar

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:24:03 (2401)

2003-12-02 19:24:03# 130. lþ. 39.19 fundur 340. mál: #A sjóntækjafræðingar# (sjónmælingar og sala tækja) frv., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:24]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur mælt fyrir breytingu á lögum um sjóntækjafræðinga. Þar er aðallega um að ræða að ráðherra getur í reglugerð heimilað sjóntækjafræðingum, sem uppfylla nánar tilgreind menntunarskilyrði, að mæla sjón og fullvinna gleraugu.

Það er oft mikill hávaði í kringum þetta mál en það virðist greinilega vera búið að vinna mjög vel í málinu af hálfu landlæknis með því að kalla bæði fram sjóntækjafræðingana og augnlæknana. Það virðist vera orðin ákveðin sátt í þessu máli um hvernig eigi að fara með þetta og hvaða lendingu eigi að ná og er það vel. Það er mjög mikilvægt að við höfum í huga hvernig fyrirkomulag er hjá nágrannaþjóðunum, ekki síst vegna þess að við höfum ekki þessa menntun hér á landi, sjóntækjafræðingar eru fyrst og fremst menntaðir erlendis. Það kemur skýrt í ljós hjá Einari Stefánssyni prófessor í augnlæknisfræði þar sem hann tekur saman menntunarmismuninn. Það þarf líka alltaf að vera vel tryggt varðandi sjúkdómana, gláku og annað, að ekki sé verið að ana að neinu svo að það fari ekki á milli mála hvað er um að ræða.

Frumvarpið er nú til 1. umr. og ég fæ ekki betur séð en að nefndin eigi eftir að fara yfir gríðarlega mikið af gögnum. Ef þingmenn skoða greinargerð með frv. eru helstu gögn um 29 sem talin eru upp og þetta verður ekki mál sem verður flýtt sér með. En ég vil benda á mikilvægt atriði á bls. 10. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Eðlilegt er að takmarkanir sjóntækjafræðinga til sjónmælinga, þeirra sem til þess fá leyfi, verði sem líkastar þeim sem nú gilda á hinum Norðurlöndunum. Í reglugerðinni yrðu því ákvæði sem takmörkuðu umfang sjónmælinga hjá sjóntækjafræðingum.`` Sjóntækjafræðingar mega ekki láta frá sér fara sjónhjálpartæki án fyrirsagnar augnlæknis til einstaklinga sem eru svo taldir upp. T.d. börn undir 12 ára aldri, fólk sem aldrei hefur farið til augnlæknis til athugunar á sjón, sjúklingar sem hafa skilgreindan augnsjúkdóm eða aðra kvilla sem skaðlegir gætu verið sjón, svo sem sykursýki, það þekkjum við afar vel. Sjúklingar sem eiga nána ættingja með gláku, fólk sem hefur náð 55 ára aldri og fólk sem hefur ekki betri sjónskerpu en 6/12. Hafi sjón versnað skyndilega, séu takmarkanir á sjónsviði, sé einstaklingur rangeygður eða hafi tvísýni mega þeir heldur ekki meðhöndla viðkomandi.

Það er afar mikilvægt að ákveðnu samstarfi milli augnlækna og sjóntækjafræðinga sé komið á þegar þetta mál kemst í höfn og að það verði ekki hávaðameira en svo að við fylgjum eftir því sem gerist bæði á Norðurlöndunum og í Evrópu í þessum málum þannig að í rauninni geti þetta verið hinn eðlilegasti hlutur. Þetta er 1. umr. Það er mikil vinna í nefndinni við að kalla eftir gögnum og umsögnum um málið en mjög mikil vinna hefur verið unnin og ber að þakka fyrir hana. Það kemur greinilega fram í þeirri vinnu sem landlæknisembættið hefur lagt af mörkum.