Sjóntækjafræðingar

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:37:07 (2404)

2003-12-02 19:37:07# 130. lþ. 39.19 fundur 340. mál: #A sjóntækjafræðingar# (sjónmælingar og sala tækja) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:37]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Loksins, loksins. Það eru viðbrögð mín við þessu frv. Ég sá fyrst glitta í það þegar ég var í stjórnarliði 1993, fyrir um 10 árum, en ekki tókst að koma því fram á þeim tíma. Ég er alveg sammála þessu frv. eins og það er lagt fram. Ég hef engar áhyggjur af einstökum setningum eða orðalagi eins og hv. þm. Mörður Árnason. Ég treysti hv. heilbr.- og trn. til að fara vel yfir þetta mál og finna ásættanlega niðurstöðu.

Fyrir mér er þetta ekki bara heilsufarslegt mál heldur líka neytendamál. Það skiptir miklu máli í samfélagi okkar í dag að fólk eigi völ á þeirri þjónustu sem sjóntækjafræðingar bjóða upp á. Þær heimildir sem ráðherra fær samkvæmt frv. tel ég góðar. Ég tel rétt að fara þá leið til að byrja með og sjá hver reynslan af því verður. Það er vel hugsanlegt að í krafti hennar verði hægt að slaka á þeim skilyrðum sem sett eru í frv. þegar fram í sækir.

Ég tel þetta tímabært frv. og að við hefðum átt að vera búin að samþykkja það fyrir lifandis löngu. Það er ýmiss konar þrýstingur, sem ég varð berlega var við þegar ég kom að þessu máli fyrr á árum í upphafi þingsetu minnar, sem hefur orðið þess valdandi að það hefur ekki tekist að ná þessu máli í gegn. Ég held að sú gerð málsins sem hæstv. ráðherra leggur fyrir sé þess eðlis að allir geti vel við unað, augnlæknar og sjóntækjafræðingar en ekki síst við neytendur.