Sjóntækjafræðingar

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 19:39:03 (2405)

2003-12-02 19:39:03# 130. lþ. 39.19 fundur 340. mál: #A sjóntækjafræðingar# (sjónmælingar og sala tækja) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[19:39]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum góðar undirtektir við þetta frv. Það er rétt að hér er viss málamiðlun á ferðinni sem við höfum verið að undirbúa það sem af er þessu ári. Það er sjálfsagt að heilbr.- og trn. fari vandlega yfir þetta frv.

Málið er umdeilt og í því er m.a. tekist á um hagsmuni, það er alveg rétt. Ég tel að uppsetning frv. sé sanngjörn og að þar sé reynt að halda í öryggið varðandi augnheilsu landsmanna. Það er grundvallaratriðið, að við stofnum ekki heilsunni í meiri voða en nú er. Við þurfum að skoða það mjög vel hvernig við getum tryggt að augnheilsa landsmanna bíði ekki skaða af. Ég tel að þessi uppsetning tryggi það og sú reglugerðarsetning sem kemur í kjölfar frv. Í greinargerðinni er teiknað upp hvernig sú reglugerð mundi líta út en ég endurtek að það er sjálfsagt að nefndin skoði þetta mál vandlega áður en það verður að lögum.

Ég held að það sé mál til komið að lögfesta þessa breytingu. Það er alveg rétt sem hv. 1. þm. Reykv. n. sagði, að þetta mál er búið að vera lengi í farvatninu. Um það hafa staðið harðar deilur. Sjálfsagt eru þær ekki á enda leiddar en ég tel að hér sé farin sanngjörn leið.