Starfskjör á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 14:15:52 (2422)

2003-12-03 14:15:52# 130. lþ. 41.2 fundur 347. mál: #A starfskjör á fjármálamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvort þess sé að vænta að Fjármálaeftirlitið setji reglur um upplýsingaskyldu um starfskjör stjórnenda á fjármálamarkaði. Ég leitaði til Fjármálaeftirlitsins til að fá svar við þessari fyrirspurn. Í svari þess kemur fram að samkvæmt 42. gr. reglna nr. 834/2003, um reikningsskil lánastofnana, sé skylt að upplýsa um heildarfjárhæð launa og þóknana til stjórnarmanna og stjórnenda, sundurliðað niður á einstaka stjórnarmenn og stjórnendur. Reglurnar gilda um viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki frá og með yfirstandandi reikningsári. Reglurnar eru opinberar og öllum aðgengilegar. Í bígerð er að innleiða sambærilegt ákvæði í reglur um ársreikninga lífeyrissjóða og er stefnt að því að slíkt ákvæði taki gildi frá og með reikningsárinu 2004. Setning reglna af þessu tagi fyrir vátryggingafélög heyrir hins vegar undir viðskrn. og er stefnt að því að setja sambærilegar reglur og fyrir lánastofnanir og lífeyrissjóði.