Ferðaþjónusta bænda

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 15:03:55 (2447)

2003-12-03 15:03:55# 130. lþ. 41.25 fundur 361. mál: #A ferðaþjónusta bænda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hvað síðustu fsp. varðar, komi til þess að Ferðaþjónusta bænda óski eftir að kynna sín mál sem þeir gera stundum við þann sem hér stendur, eða ræða sérstaklega skuldastöðu greinarinnar, mun ég ekki skorast undan því og leita allra leiða til þess að þessi atvinnuvegur geti þróast áfram. Eins og hefur komið fram í umræðunni eru held ég þingmenn, eins og þjóðin, sammála um að í ferðaþjónustunni liggja alveg gríðarleg tækifæri fyrir landsbyggðina. Það eru tækifæri til að lengja ferðaþjónustutímann, menn geta alveg eins komið til Íslands að elska veturinn eins og sumarið. Og útivistin og náttúran kallar menn hingað til svo margs, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir. Ísland er í augum ferðamannsins, útlendingsins, heillandi land til dvalar.

Eins og hefur komið fram í þessari umræðu þá sjáum við þetta og við þurfum auðvitað að ná saman um það, bæði upplýsingamiðstöðvar og fleiri, hvernig fyrirkomulagið og skipulagið er sem best.

Við höfum samt verið að gera kraftaverk í mörgu sem styrkir hina mörgu ferðaþjónustubændur og þá sem lifa í sveitinni. Ég nefndi Njáluverkefnið. Hvernig væri t.d. viku kartöfluuppskeruhátíð í Þykkvabænum, þar sem kartaflan stæði glæsileg út við veg og þúsundir manna kæmu til þess að smakka kartöfluréttinn í Þykkvabænum? Flóaáveitan í minni gömlu heimasveit, er t.d. ekki nýtt enn til ferðaþjónustunnar, eitt mesta afrek í Evrópu á sínum tíma, gönguleiðir, siglingaleiðir, sagan. Það er því svo margt í dag í þessari umræðu og hentar vel til þess að kalla á ferðamenn, innlenda og erlenda. Ég fór með unga stjórnmálaliða í fjós og fjárhús og hesthús í sumar. Þetta samtíðarfólk í íslenkum stjórnmálum hafði aldrei komið inn í þessi mikilvægu hús og fagnaði því að kynnast sveitinni. Þannig að við höfum verk að vinna.

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og heiti því að draga ekki af mér það sem ég get til að styrkja þennan atvinnuveg.