Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:15:57 (2503)

2003-12-03 19:15:57# 130. lþ. 41.14 fundur 222. mál: #A Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn fyrir hönd hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar sem sat á þingi sem varamaður fyrir skemmstu. Hún varðar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Nú er komið að lokaafgreiðslu fjárlaga svo að það liggur nokkuð ljóst fyrir hvernig fjárlagafrv. mun líta út þegar það verður að lögum, þótt ekki sé alveg búið að loka því. Engu að síður finnst mér ástæða til að horfa til framtíðar og þeirra hugmynda sem uppi eru meðal starfsmanna og stjórnenda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri varðandi frekari uppbyggingu á því sjúkrahúsi.

Það er mikilvægt að halda áfram uppbyggingu á fjórðungssjúkrahúsinu. Þetta er háskólasjúkrahús. Það er tengt uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Það þarf að efla kennslu og styrkja þjónustuna þannig að sjúkrahúsið standist þær kröfur sem gerðar eru til háskólasjúkrahúss. Það þarf að byggja það upp til að draga úr óþægindum og kostnaði sjúklinga og ríkisins við að fara af þjónustusvæðinu suður á Landspítala -- háskólasjúkrahús og gera fremur aðgerðir á FSA sem þar er hægt að framkvæma, og sinna sjúklingum á fjórðungssjúkrahúsinu. Það er ástæða til að minnka óþarfa álag á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og horfa á stöðuna út frá byggðasjónarmiði og styrkja þjónustusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem nær langt út fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Það er allt kjördæmið eins og það leggur sig, Norðausturkjördæmi.

Það er ánægjulegt að vita til þess að starfsmenn og stjórnendur stofnunarinnar hafa með ábyrgum hætti lagt fram raunhæfa áætlun um uppbyggingu þar sem menn sjá fyrir sér að bæta megi þjónustu við krabbameinssjúklinga og auka krabbameinslækningar, bæði með lyfjagjöf og annarri meðferð. Jafnframt eru uppi hugmyndir um að auka þjónustu við sjúklinga með þvagfærasjúkdóma og ástæða er til þess að taka undir þær. Það vill svo heppilega til að nú eru sérfræðingar til staðar. Með tilliti til þessa hefur hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lagt fram fjórar spurningar sem eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Hver eru áform ráðherra um auknar fjárveitingar til krabbameinslækninga samkvæmt beiðni sjúkrahússins?

2. Hver eru áform um fjárveitingar til þess að auka þjónustu vegna þvagfærasjúkdóma samkvæmt beiðni sjúkrahússins?

3. Hvernig eru áætlanir ráðherra um innréttingar í suðurálmu sjúkrahússins?

4. Hvað líður áformum um frekari uppbyggingu til þess að fjölga plássum í endurhæfingu á sjúkrahúsinu?