Skipan löggæslumála

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:04:25 (2522)

2003-12-03 20:04:25# 130. lþ. 41.18 fundur 362. mál: #A skipan löggæslumála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:04]

Fyrirspyrjandi (Önundur S. Björnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin.

Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á að fækkun og stækkun umdæma getur sannarlega átt rétt á sér. Hins vegar verður að huga vel að staðarþekkingu lögreglumanna. Hún er mjög veigamikil, ekki síst í smærri byggðarlögum úti á landi þar sem víðlendur eru miklar. Eins nefndi ég áðan að tryggja verði lágmarksþjónustu í hverju byggðarlagi, að jaðarbyggðir verði ekki út undan í stórum og víðfeðmum umdæmum.

Ég hefði einnig talið eðlilegt að í starfshópi af þessum toga hefðu fulltrúar lögreglu og sýslumanna átt sæti. Ég tel að ráðherra hafi enn þá möguleika á að bæta inn í þennan starfshóp fulltrúum þessara aðila sem eðli máls samkvæmt hafa mestu og bestu þekkingu á málaflokknum.