Fjarskiptamiðstöð lögreglu

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:23:48 (2531)

2003-12-03 20:23:48# 130. lþ. 41.20 fundur 371. mál: #A fjarskiptamiðstöð lögreglu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:23]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Björgunarstöðin í Skógarhlíð er vel útbúin stöð þar sem lögregla, slökkvilið, hjálparsveitir, Flugmálastjórn og Landhelgisgæslan sameina krafta sína í þágu öryggis og björgunarmála fyrir landsmenn. Aðeins vantar vaktstöð siglinga þangað inn en það er væntanlegt að hún komi þangað og það skilar mikilli hagræðingu og sparnaði.

Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar er vel tækjum búin með TETRA-fjarskiptabúnað sem fylgist með því á tölvu hvar öll tæki og búnaður, sem þarf til að bregðast við, er staðsettur og í hvaða notkun hann er, svo sem lögreglubílar, sjúkrabifreiðar eða þjónustubílar lögreglu, hvort þeir eru í akstri eða uppteknir og hvað þeir eru að gera. Auðvelt er því ávallt að senda næsta bíl eða björgunaraðila á vettvang ef eitthvað kemur upp á. Það kom mér því á óvart þegar ég var í heimsókn þar í síðustu viku að ég heyrði að stöðin þjónar ekki nema hluta landsins. Hún þjónar sem sagt suðvesturhorninu, frá norðurinnkeyrslunni í Hvalfjarðargöngin og suður Reykjanesið til Selfoss. Skógarhlíðin hefur boðvald yfir öllu því svæði og hefur yfirsýn og heldur utan um það. En gerist eitthvað utan svæðisins, ég nefni sem dæmi í Borgarnesi eða á Hvolsvelli eða einhvers staðar annars staðar á landinu, þá heyrir það ekki lengur undir þessa björgunarmiðstöð í Skógarhlíðinni, þ.e. fjarskiptamiðstöð lögreglunnar þar, og þetta hefur valdið vandræðum eins og dæmi eru um og jafnvel haft alvarlegar afleiðingar.

Öll símtöl sem koma inn í fjarskiptamiðstöðina til neyðarlínunnar í nr. 112 eru flokkuð þar og fara yfir 80% til fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar í Skógarhlíð en 20% annað. Þannig að tilkynning um t.d. tilvik eins og ég nefndi í Borgarfirði fer til lögreglunnar í Borgarnesi og á sama hátt á öðrum svæðum sem eru fyrir utan þetta þjónustusvæði fjarskiptamiðstöðvarinnar. Komi t.d. tilkynning um óeðlilegt ökulag einhvers staðar á einhverju svæði fyrir utan þjónustusvæði stöðvarinnar, þá er það bara lögreglan á þeim stað þar sem bíllinn er að keyra sem fær að vita um það og hann er jafnvel kominn út úr umdæminu þegar á að bregðast við. Ég get ekki séð annað en að þarna vanti heildaryfirsýn yfir allt landið og eitt boðvald. Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh. hvað sé því til fyrirstöðu að fjarskiptamiðstöðin í Skógarhlíð, sem hefur fullkominn tækjabúnað og góða yfirsýn yfir þjónustusvæði sitt, þjóni þannig á sama hátt öllu landinu.