Fjarskiptamiðstöð lögreglu

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:26:50 (2532)

2003-12-03 20:26:50# 130. lþ. 41.20 fundur 371. mál: #A fjarskiptamiðstöð lögreglu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:26]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þar sem ég fékk ekki orðið áðan út af ummælum hv. þm. Marðar Árnasonar, vil ég láta þess getið að það var engin björgunaráætlun til í Vestmannaeyjum þegar þetta gekk yfir þar, sem gekk út á það að nota skipin með þeim hætti sem gert var til að flytja fólkið á brott. Það var heppni og tókst giftusamlega, sem betur fer, og síst af öllu ber að draga það mál inn í þær umræður sem hér eru, hve giftusamlega það allt tókst, og sýnir hversu fjarstæðukenndur þessi málflutningur er.

Varðandi þá fyrirspurn sem ég er að svara hér þá er spurt: ,,Hvað er því til fyrirstöðu að fjarskiptamiðstöð lögreglu í Skógarhlíð þjóni öllu landinu?``

Þjónusta fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar byggir á TETRA-fjarskiptakerfinu sem gerir kleift að fylgjast með ferðum löggæslubifreiða og löggæslumanna á tölvuskjá og beina þeim á afbrota- eða slysastað. Stöðin getur ekki viðhaft sams konar stýringu við löggæslu í öðrum landshlutum nema til komi útfærsla á þjónustu TETRA -kerfisins. Einnig þyrfti þá einhver starfsmannafjölgun að koma til. Hins vegar er rétt að geta þess að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar veitir lögregluliðum á landsbyggðinni þjónustu með ýmiss konar miðlun upplýsinga í tölvukerfum sem lögreglan hefur aðgang að fyrir lögreglumenn sem staddir eru fjarri lögreglustöð sinni.