Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:06:51 (2599)

2003-12-04 12:06:51# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segist sannfærður um að þjónustan mundi batna við það að færa söluna á áfengi til einkaaðila. Ég held ekki. Ég held hún mundi versna. Ég held að verðlag mundi hækka og úrval mundi minnka, einkum á fámennum stöðum. Þetta er umræða sem við eigum án efa eftir að taka síðar.

Ég tek eftir því að hv. þm. segir að það sé mikilvægt að færa söluna frá ÁTVR til einkaaðila með einhverjum hætti. Með öðrum orðum --- þetta er hugmyndafræðileg afstaða. Það er markmið í sjálfu sér að einkavæða þessa sölu, með einhverjum hætti. Ef það sýnir sig hins vegar að þjónustan versnar, verðlag hækkar og úrval verður minna, þá hefði ég nú haldið að við ættum að láta af þessari trú okkar á þessa hugmyndafræði.

Heimurinn er ekki svart-hvítur. Þetta eru ekki þeir valkostir sem hv. þm. vill láta í veðri vaka. Ég held að við getum í senn verið með góða þjónustu, verið með gott aðgengi án þess að fara þar um of og setja áfengi inn í allar verslanir landsins. Um þetta finnst mér þessi slagur standa.

Varðandi löggjöfina og auglýsingarnar segir hv. þm. að það sé greinilegt að löggjöfin sé götótt. Hvers vegna er hún götótt? Það er vegna þess að menn vilja ekki hlýða henni. Menn vilja ekki fara að landslögum. Menn vilja ekki sætta sig við að það sé bannað að auglýsa brennivín og tóbak og þá fara þeir einhverjar aðrar leiðir, inn um bakdyrnar. Það er hið götótta í málinu. Það er siðferðið hjá þessum aðila. Ef menn vilja breyta löggjöfinni, eiga þeir að fara með það í gegnum þingið, vinna sínum málstað fylgi og reyna að fá meiri hluta hér á Alþingi. Þá tökumst við á um það. En þetta er ekki leiðin, að brjóta landslög.