Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 16:07:37 (2837)

2003-12-05 16:07:37# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég notaði orðið styrkur var ég ekki að tala um það í neinni niðrandi merkingu. Ég tel að það sé styrkur fyrir íslenska þjóð að halda landinu í byggð og hef margsagt það í þessum ræðustól, og að það sé meira en peninganna virði að sjá til þess að byggðir landsins haldi velli og ekki síst að sveitabyggðin grisjist ekki meira en orðið er.

Við höfum lýst því yfir í Frjálsl. að þó svo að við vildum taka upp breytt fyrirkomulag þá værum við ekkert endilega þar með að leggja til að þeir fjármunir sem farið hafa í það á undanförnum árum að greiða styrki til landbúnaðarins, eins og ég kalla þá eða stuðning, verði lækkaðir frá því sem nú er. Það kann hins vegar að vera að það sé til önnur útfærsla sem henti betur betur til þess að opna fyrir það að bændur geti starfað við fleira en bara sauðfjárræktina og mjólkurframleiðsluna en njóti samt framlaga að því marki að þeir geti setið á búum sínum og jörðum og nýtt þær.

Ég held að það verði okkur til mikils framdráttar í framtíðinni að halda landinu í byggð og það verði okkur mjög verðmætt að eiga Ísland í byggð, ekki síst eins og stefnir nú í að hér fjölgi ferðamönnum ár eftir ár. Það er vissulega svo að í sveitum landsins hefur verið gert mikið átak í því að taka á móti ferðamönnum og verður örugglega meira hlutskipti í framtíðinni. Ég tel að það sé ekki síst verðmæti í því að þeir sem sitja landið, kunna sögu þess og kunna að nýta það og umgangast það, sitji þar áfram og geti miðlað þeirri þekkingu m.a. til ferðamanna. Ég er því eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að leggja dálítið til til að halda landinu í byggð og það muni skila okkur margfalt í framtíðinni.