Umferðarlög

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:05:14 (2843)

2003-12-06 10:05:14# 130. lþ. 44.1 fundur 419. mál: #A umferðarlög# (yfirstjórn málaflokksins) frv. 132/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til laga um breytingu á umferðarlögum sem felur það í sér að verið er að færa allar samgöngur undir samgrn. Ég verð að segja það hér að ég er hlynnt þessari breytingu. Mér finnst eðlilegt að allar samgöngur heyri undir samgrn. Það er eins og málum er skipað í öðrum löndum, nágrannalöndum okkar, löndum sem við eigum samskipti við. Við sjáum hvernig málum er háttað varðandi flugið, flugsamgöngur og flugmálin öll eru undir samgrn. eins og flutningur á hafi þannig að þetta er fullkomlega eðlilegt.

Ég tel líka eðlilegt að afskipti lögreglu vegna brota á umferðarlögum og slysa í umferðinni breytist ekki, það er fullkomlega eðlilegt, og ekki heldur rannsóknir og saksókn í slíkum málum. Það á að sjálfsögðu að heyra undir dómsmrn. áfram. Ég velti samt fyrir mér, núna við 1. umr. þessa máls, hvort mál sem nú eru komin til allshn. og varða umferðarmál muni færast yfir til samgn. þegar breytingin hefur gengið í gegn. Ég vildi gjarnan fá svör við því því að ég held að ég sé með eitt mál í þessa veru sem ég hefði þá talið eðlilegt að færðist yfir til samgn. að þessari breytingu lögfestri.

Ég vil líka nefna að mér finnst til fyrirmyndar að birta reglugerðina í þskj. Við erum oft að fjalla um lagabreytingar og breytingar sem varða reglugerðir og reglugerðirnar fylgja ekki með en ég tel að þetta sé til fyrirmyndar og skýri þessa breytingu.

Herra forseti. Ég lýsi mig hlynnta þessari breytingu á skipan mála.