Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:14:14 (2848)

2003-12-06 10:14:14# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:14]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

Með frv. þessu, verði það að lögum, er stuðlað að aukinni skilvirkni og festu við framkvæmd laganna frá því sem verið hefur, auk þess sem ætla má að með samþykkt þess sparist umtalsverðir fjármunir svo sem gert er ráð fyrir í nýsamþykktum fjárlögum næsta árs. Er lagt til að því markmiði verði m.a. náð með skýrari reglum um tilkynningar um vinnslustöðvanir og umsóknir fyrirtækja er eiga rétt á greiðslum samkvæmt lögunum.

Þegar litið er til þeirrar tækni sem fyrirtæki og stofnanir almennt búa yfir þykir eðlilegt að fiskvinnslufyrirtæki tilkynni skriflega um vinnslustöðvun með eins sólarhrings fyrirvara í stað þriggja eins og nú er. Má gera ráð fyrir að með sólarhrings fyrirvara sé það vitað í fyrirtækjunum með þó nokkurri vissu hvort af vinnslustöðvun verður. Með þessum hætti er Vinnumálastofnun kunnugt um hvenær vinnslustöðvun hefst nákvæmlega sem auðveldar eftirlitið með framkvæmd laganna.

[10:15]

Í kjölfar tilkynningar um vinnslustöðvun er gert ráð fyrir að fyrirtæki skili umsókn til Vinnumálastofnunar innan eins mánaðar frá því að vinnslustöðvun hófst. Er þá mikilvægt að öll gögn fylgi umsókninni svo að unnt sé að inna greiðslurnar af hendi til fyrirtækjanna svo fljótt sem verða má. Sinni fyrirtæki ekki um að sækja um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvun hófst er lagt til að það verði af rétti sínum til greiðslna að því er varðar umrædda vinnslustöðvun. Er þetta gert í því skyni að auka hagræði og eftirlit í framkvæmd og koma í veg fyrir að umsóknir og nauðsynleg gögn berist Vinnumálastofnun löngu eftir umrædda vinnslustöðvun.

Herra forseti. Gert er ráð fyrir að skilgreining á því hvað telst tímabundin vinnslustöðvun verði þrengd í því skyni að gera ástæður þær er réttlæta vinnslustöðvun í skilningi laganna gagnsærri. Við framkvæmd laganna hefur skilgreiningin þótt nokkuð víðtæk og matskennd en á stundum hefur reynst erfiðleikum bundið að meta hvaða rekstrarlegu ástæður teljast réttlæta vinnslustöðvun í skilningi laganna. Er lagt til í frv. þessu að með tímabundinni vinnslustöðvun sé átt við vinnslustöðvanir er verða vegna hráefnisskorts eða ófyrirsjáanlegra ástæðna sem félmrh. er ætlað að skilgreina nánar með reglugerð.

Þá er lagt til að fyrirtæki sem starfrækir fiskvinnslu og greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamninga eigi rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag eins og verið hefur. Þó er gert ráð fyrir að ekki verði greitt fyrir fyrstu tvo dagana á tímabilinu 1. janúar til 30 júní ár hvert sem og fyrstu tvo dagana á tímabilinu 1. júlí til 31. desember. Í gildandi lögum er um að ræða tvo daga á ári hverju sem ekki er greitt vegna.

Hæstv. forseti. Reynslan af framkvæmd laga nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, hefur verið sú að hver vinnslustöðvun varir að meðaltali í fáeina daga í senn. Þær geta hins vegar verið nokkuð tíðar en að meðaltali eru um það bil 12 vinnslustöðvar á ári hverju hjá sama fyrirtæki. Að því er varðar heildarfjölda greiðsludaga á ári virðist sem fjöldi greiðsludaga fyrir hvert fyrirtæki sé um 16 dagar að meðaltali.

Að teknu tilliti til framangreindra upplýsinga er lagt til í frv. þessu að heimilt verði að bæta fyrirtækjum í einni samfelldri vinnslustöðvun allt að 20 vinnsludögum. Einnig er gert ráð fyrir að í heild verði heimilt að greiða fyrir sem nemur 30 vinnsludögum á ári hverju. Þó er lagt til, sem er nýmæli hæstv. forseti, að Vinnumálastofnun hafi heimild til að veita sérstakar undanþágur frá heildarfjölda greiðsludaga þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi er leiða til þess að hráefnisskortur veldur því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis. Þar er sérstaklega vísað til verkfalla annarra en fiskvinnslufólks er leiða til hráefnisskorts í fiskvinnslufyrirtækjum sem og byggðasjónarmiða. Er gert ráð fyrir að skýrt verði nánar í reglugerð hvað átt er við með sérstökum ástæðum.

Í því skyni að tryggja virkt eftirlit með framkvæmd laganna er síðast en ekki síst lagt til að Vinnumálastofnun hafi skýrar heimildir til að krefja fyrirtæki um endurgreiðslu í þeim tilvikum er það hefur fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það hefur átt rétt á samkvæmt lögum á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga. Enn fremur er talið mikilvægt að í þeim tilvikum er fyrirtæki endurgreiðir ekki ofgreiddar fjárhæðir hafi Vinnumálastofnun heimildir til skuldajafnaðar við greiðslur er sama fyrirtæki getur átt rétt á vegna síðari vinnslustöðvana.

Hæstv. forseti. Með þeim breytingum sem hér er lagt til að gerðar verði á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks eru stigin mikilvæg skref í þá átt að skýra framkvæmd laganna, skerpa á eftirfylgni með þeim og auka skilvirkni þeirra. Gert er ráð fyrir að breytingar þessar feli að auki í sér umtalsverðan sparnað fjármuna eða sem nemur 65--70 millj. kr. á ári hverju.

Í nýsamþykktum fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks lækki um 100 millj. kr. frá því sem fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir. Skýringar á þeim mismun er þarna birtist er að leita í þeirri staðreynd að reynslan af framkvæmd laganna, bæði í ár og í fyrra, er sú að talsvert hefur dregið úr greiðslum sjóðsins til þessa verkefnis bæði árin. Kemur þar til gott ástand í fiskvinnslu, bærilegt hráefnisverð en síðast en ekki síst aukin eftirfylgni Vinnumálastofnunar gagnvart þeim aðilum sem um ræðir. Varlega má áætla að innbyggður sparnaður í kerfinu nemi á bilinu 30--40 millj. kr. á ári. Samtals er því hér um að ræða, hæstv. forseti, aðgerðir sem vænta má að dragi úr fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks um 100 millj. kr. á næsta ári líkt og nýsamþykkt fjárlög gera ráð fyrir.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðu á Alþingi í dag legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.