Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:21:01 (2849)

2003-12-06 10:21:01# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:21]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli því að hæstv. félmrh. sýni þinginu það virðingarleysi að ætlast til þess að þingið afgreiði þetta mál á þeirri viku sem eftir lifir af starfsáætlun þingsins. Reyndar er það svo að hæstv. ráðherra var í fyrsta sinn í gær að leggja fram sitt fyrsta þingmál sem er auðvitað móðgun við þingið enda hefur félmn. verið hálfverklaus í vetur.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Er það virkilega svo að hann ætli enn að standa á því að leggja fram frv. um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar í næstu viku sem skerðir atvinnuleysisbætur? Ætlar hæstv. ráðherra virkilega í það pólitíska skítverk rétt fyrir jólin að skerða atvinnuleysisbætur og ætlar hann að bjóða þinginu upp á það að afgreiða það mál á tveimur eða þremur dögum? Við þurfum líkt og með þetta mál að senda það mál til umsagnar. Hæstv. ráðherra verður því að svara því nú hvort hann ætli virkilega að bjóða þinginu upp á það að leggja það mál fyrir þingið í næstu viku en vonandi er hæstv. ráðherra hættur við að leggja það frv. fram.