Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:32:57 (2864)

2003-12-06 10:32:57# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:32]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er athyglisvert sjónarmið. En almennt má segja að sú stefna hafi verið ríkjandi að draga úr sértækum stuðningi við einstakar atvinnugreinar. Slíkur stuðningur mismunar fyrirtækjum á samkeppnismarkaði og er ekki heppilegur í því umhverfi sem við búum við.

Það er því ekki ósennilegt að fyrirgreiðsla sem þessi muni fremur leggjast af þegar til framtíðar er litið og fyrirtæki í fiskvinnslu verði að sitja við sama borð og aðrir í sínum rekstri. (SigurjÞ: Það er innan greinarinnar.) Að mínu mati er ekki tímabært að ræða það að sinni að leggja þetta að fullu af. Því er hér lagt til að stuðningur við fiskvinnslustöðvar vegna hráefnisskorts geti áfram verið fyrir hendi með þeim breytingum sem hér eru kynntar.