Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:10:49 (2872)

2003-12-06 11:10:49# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér kveður ekki við nýjan tón. Í rauninni var ég að enduróma tóninn sem ég heyrði úr símtólinu í samtalinu við Halldór Björnsson, formann Starfsgreinasambandsins. Hann sagði mér að verkalýðshreyfingin hefði alltaf verið tilbúin til að setjast niður til samráðs um endurskoðun þessara laga, og væri það enn, en hún gerði það ekki undir hótunum eða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að skerða kjör fiskvinnslufólks, atvinnulauss fiskvinnslufólks, og það var þetta sem ég sagði.

Þetta er nákvæmlega sami tónninn og verið hefur hjá verkalýðshreyfingunni í allt haust og í sumar frá því að farið var að ræða þessi mál. Mín tillaga er sú að ríkisstjórnin dragi til baka þessar hótanir um kjaraskerðingu og bjóði verkalýðshreyfingunni til raunverulegs samráðs.

Það sem ég sagði var að það yrði að gera grundvallarbreytingar á lagafrv. ef það ætti að ná fram að ganga í sátt við verkalýðshreyfinguna og þar með í sátt við stjórnarandstöðuna á Alþingi.