Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:41:00 (2876)

2003-12-06 11:41:00# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst að sú umræða sem hér fer fram hafi nú þegar sýnt fram á það að ríkisstjórnin og Framsfl. eru undarlega oft í því hlutverki hér í sölum Alþingis að gera atlögu að þeim sem síst skyldi, tekjulága fólkinu í samfélaginu, öryrkjum og fólki sem á mest undir að staðið sé við bakið á því. Það er auðvitað dapurlegt.

En þetta mál sem við ræðum hér er á ýmsan hátt merkilegt. Þegar verkalýðshreyfingin hefur verið að berjast fyrir framförum og réttindum til handa verkafólki hafa ýmis ljón verið á þeim vegi. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minnti á lög um rétt fólks til uppsagnarfrests sem munu hafa verið samþykkt fyrst 1957 en eru að stofni til núna frá 1979 og voru lögfest á sjálfan verkalýðsdaginn 1979. Í þeim lögum, sem eru mikil réttindabót verkafólks í landinu hvað varðar rétt til uppsagnarfrests og atvinnuréttinda af fleira tagi, er ein grein sem er í raun og veru orsakavaldurinn fyrir þeim lögum um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna fiskvinnslufólks sem hér er verið að ræða, það er 3. gr. í fyrrnefndum lögum. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Nú fellur niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir.``

Þetta þýddi að atvinnurekendur sem stóðu frammi fyrir hráefnisleysi eða einhverju öðru sem hér er nefnt gátu sent fólk heim án launa. Og í framhaldi af þessum lögum er í raun og veru tilkoma þess frv. sem hér er verið að ræða í dag.

Af hverju skyldi það hafa verið? Vegna þess að atvinnurekendur í fiskvinnslu voru í aðalatriðum þeir einu sem notuðu þetta ákvæði til þess að senda fólk heim kauplaust. Þess vegna berst verkalýðshreyfingin fyrir því að tekið verði á þessu máli. Þess vegna verða lögin til sem hér eru til umræðu.

Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn sé að fara kolöfuga leið að því sem hún ætlar sér hér að gera. Ef taka á á þessu máli á að taka á lögunum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests því á skal að ósi stemma og það þarf ekki þessi lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks ef það hefur sömu atvinnuréttindi og annað fólk í landinu.

Ég er þeirrar skoðunar og ég hvet til þess að í hv. nefnd óski menn eftir því að farið verði farið yfir það og fengin skýrsla frá Lagastofnun Háskólans eða öðrum sambærilegum aðilum hvort 3. gr. í lögunum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests standist jafnræðisreglu, að það sé verið að taka út einstaka hópa í þjóðfélaginu og gera þá réttminni gagnvart almennum reglum sem eru í gildi heldur en aðra. Mér finnst að það sé löngu kominn tími til þess að atvinnurekendur standi hver við hliðina á öðrum, standi jafnræðislega í sömu sporum hvort sem þeir eru að reka fiskvinnslu eða önnur fyrirtæki í þessu landi. Ef hið opinbera telur að það þurfi að hjálpa einhverjum atvinnurekendum af einhverjum sérstökum ástæðum til þess að reka sín fyrirtæki, er miklu nær að fara aðrar leiðir til þess heldur en þá sem hér er farin að taka fyrst réttindi af einhverjum hópum í samfélaginu og koma svo með einhver önnur lög til þess að reyna að lappa upp á ástandið eins og hér hefur í raun og veru verið gert. Mitt innlegg inn í umræðuna er að menn fáist við orsökina og upphaf þess að þessi lög hafa orðið til og reyni að stefna að því með umfjölluninni að fella þau úr gildi.