Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:47:29 (2877)

2003-12-06 11:47:29# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:47]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég hefði talið miklu vænlegra fyrir málið að farið væri fram með það í meira samráði við þá aðila sem málið varðar. Það er óskiljanlegt að ætla að keyra málið í gegnum þingið á nokkrum dögum án nokkurs samráðs við aðila að heitið geti. Við erum að tala um undirstöðuatvinnugrein landsmanna. Sjávarútvegurinn skapar vel yfir 60% af gjaldeyristekjum og ég hefði talið að menn ættu að vanda til lagasetningar sem skiptir svona mikilvæga útflutningsgrein svo miklu máli.

Ég ræddi við starfsmann Starfsgreinasambandsins, Kristján Bragason, og fékk bréf frá honum, m.a. með upplýsingum um hvernig þetta mál horfir við launþegahreyfingunni. Með leyfi forseta vil ég fá að grípa niður í ágæta punkta sem hann sendi mér, svohljóðandi:

,,Samkvæmt kjarasamningum fiskvinnslufólks eru tvær aðferðir til að senda fólk heim vegna hráefnisleysis. Það er annars vegar þriggja daga reglan, starfsfólk heldur fastakaupi án bónuss og álaga fyrir dagvinnu þótt það sé án vinnu en fyrirtæki fær greiddar atvinnuleysisbætur upp í launakostnaðinn. Síðan er það fjögurra vikna reglan, rekstrarstöðvun tilkynnt með fjögurra vikna fyrirvara og að þeim tíma liðnum stöðvast vinnsla og launagreiðslur falla niður.``

Sú regla er einungis möguleg ef búist er við lengri rekstrarstöðvun en til tveggja vikna. Starfsfólk er sent heim á atvinnuleysisbætur sem eru mun lægri en föst dagvinna, sem er um 93 þús. kr. á mánuði, en fullar bætur eru um 68 þús. kr. Fiskvinnslufólk verður því af um 25 þús. kr. í laun á mánuði.

,,Tillaga ráðherra gengur út á það að skerða möguleika fyrirtækja til að nýta sér þriggja daga regluna sem er að okkar mati hagstæðari fyrir fiskvinnslufólk. Ef meiri takmarkanir verða settar á fiskvinnslufyrirtækin mun það leiða til þess að menn loki fyrirtækjunum sínum í lengri tíma en áður og sendi allt starfsfólk sitt á atvinnuleysisbætur, þ.e. nota fjögurra vikna regluna. Það er því ekki greinilegt hvernig slíkt muni leiða til sparnaðar fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð.``

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hafi hugleitt þennan möguleika, að þetta muni þá leiða til þess að menn loki fyrirtækjunum lengur eins og fram kemur í bréfi Kristjáns Bragasonar hjá Starfsgreinasambandinu. Er þá kannski möguleiki að þetta muni ekki leiða til sparnaðar þegar öllu verður á botninn hvolft? Hvað sem því líður, frú forseti, sýnir þetta frv. ákveðið skilningsleysi gagnvart undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Menn fara hér fram og ætla að keyra í gegn frv. á nokkrum dögum án nokkurs samstarfs. Það hefði verið miklu nær fyrir málið að leita upplýsinga, t.d. hjá Samtökum atvinnulífsins um hvernig þetta mál horfir við þeim, og ég tala nú ekki um fiskvinnslu án útgerðar. Það eru oft fiskvinnslur án útgerðar sem eiga mest á hættu að lenda illa úti ef reglunum verður breytt. Þetta skilningsleysi kemur víða fram hjá stjórnvöldum. Við sjáum t.d. að menntamálayfirvöld á Íslandi telja enga þörf á því að starfrækja fiskvinnsluskóla. Það er alveg ótrúlegt og þegar það á að fjalla um lagasetningu sem varðar starfsfólk í þessari vinnslu sem skiptir þjóðarbúið miklu máli á að koma því með einhverri flýtimeðferð í gegnum þingið, rétt til að spara 70 millj. eða hver sú upphæð er því að þessi upphæð skiptir í raun ekki öllu máli fyrir efnahagslífið í heild sinni. Það er hins vegar hætta á því eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna að þetta muni stefna kjarasamningum í hættu og gera þá erfiðari fyrir upphæð sem er ekki hærri en raun ber vitni. Þess vegna skora ég á hæstv. félmrh. að gefa þessu máli betri tíma og vanda frekar til þess.