Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 12:01:41 (2879)

2003-12-06 12:01:41# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, VF
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[12:01]

Valdimar L. Friðriksson:

Virðulegi forseti. Eins og skýrt hefur komið fram er verið að ræða um frv. til laga um breytingu á greiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Það er alveg greinilegt í mínum huga að enn og aftur, því miður, eru menn að narta í tekjur þeirra sem minnst hafa.

Í 1. gr. b. í frv. segir, með leyfi forseta:

,,... skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem það greiðir starfsmönnum laun meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur að undanskildum fyrstu tveimur dögunum á tímabilinu 1. janúar til 30. júní og fyrstu tveimur dögunum á tímabilinu 1. júlí til 31. desember ...``

Þarna er eins og skýrt hefur komið fram hjá öðrum hv. þm. verið að fjölga launalausum dögum úr tveimur í fjóra meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur. Jafnframt er ætlunin eins og kemur fram hér í c-lið og d-lið að fækka greiðsludögum til þeirra sem missa vinnu vegna vinnslustöðvunar.

Menn hafa aðeins verið að velta því upp hvaða áhrif þetta muni hafa á gerð kjarasamninga á næsta ári. Sá er hér stendur mun væntanlega fyrir hönd Starfsmannafélags ríkisstofnana taka þátt í næstu kjarasamningum og ég fullyrði að þetta mun að sjálfsögðu hafa áhrif. Þetta mun hafa áhrif á okkur. Við getum ekki sætt okkur við eða réttara sagt, Starfsmannafélag ríkisstofnana mun ekki sætta sig við að á sama tíma og menn eru að leita eftir 150 þús. kr. lágmarkslaunum fyrir félagsmenn sína í næstu samningum þá komi skerðing á launum fiskvinnslufólks eða atvinnuleysisbótum.

Ég hef það á tilfinningunni að hér séu menn að búa til vandamál fyrir næstu samningagerð væntanlega til að setja ríkið í einhverja betri samningsstöðu. En það er alveg á hreinu að þetta frv. frá hæstv. félmrh. setur kjarasamningana í uppnám.

Mér er alltaf illa við það þegar menn eru að búa sér til vandamál svo ég var að velta því fyrir mér að venda mínu kvæði í kross og gefa hæstv. félmrh. alvöruvandamál, svona smájólapakka sem ég hefði viljað að hann mundi snúa sér að og reyna að leysa á næstu vikum en draga þetta frv. frekar til baka. Ég er að tala um vandamál eins af þeim sem minna mega sín. Það er Ásdís Jónsdóttir sem á barn með Goldenhar-heilkenni. Þessi kona hefur þvælst í kerfinu fram og til baka milli ríkis og sveitarfélaga. Hvorugur aðilinn vill taka á þessu máli. Það er að vísu misjafnt eftir sveitarfélögum, því miður, en það er alveg skýrt samkvæmt lögum að þessi kona á að njóta aðstoðar frá ríkinu. Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að senda hæstv. félmrh. með þetta alvöruvandamál heim í von um að hann taki á því sem fyrst.