Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 13:54:12 (2911)

2003-12-06 13:54:12# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrir þrem dögum ræddum við frv. til fjárlaga og þá fór ég í andsvar við hv. þm. Helga Hjörvar. Þá hljóp hann úr salnum í miðju andsvari. Ég ætla að vona að hann geri það ekki núna og skirrist ekki við málefnalega umræðu þar sem honum virðist líka best slagsmál, markaðssetning, at og deilur um samninga á eða ekki.

Vandinn sem um er að ræða eru þeir öryrkjar sem ekki ná framreikningi í lífeyrissjóði. Þeir eru sárafáir. Eftir þrjú ár á vinnumarkaði fá menn framreikning, myndarlegan, herra forseti.

Ég vil spyrja hv. þm. hvers vegna Öryrkjabandalagið er að gusa þessari viðbót á alla öryrkja í stað þess að einbeita kröftum sínum að þeim sem fá ekki framreikning og hægt yrði þá að gera betur við og er miklu ódýrara. Ég nefni sem dæmi að meðallaun Íslendinga eru 250 þús. kr. Ef slíkur fer á lífeyri og á tvö börn fær hann 150 þús. kr. úr lífeyrissjóðnum, 60%. Hann fær 20 þús. kr. lágmark úr Tryggingastofnun og þá er hann kominn í 170 þús. Hann fær 44 þús. kr. úr lífeyrissjóðnum og Tryggingastofnun fyrir tvö börn. Hann er sem sagt kominn með 214 þús. kr. í lífeyri. Hér á að bæta við 12 þúsund kalli í viðbót, ef hann er tvítugur, og hann er þá kominn með 226 þús. kr. á mánuði. Er ástæða til þess að vera að bæta þetta, ég spyr? Væri ekki nær að snúa sér að þeim öryrkjum sem virkilega þurfa á því að halda og fá ekki framreikning í lífeyrissjóði og gera jafnvel almennilega við þá?