Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:36:01 (2921)

2003-12-06 14:36:01# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Þuríður Backman (andsvar):

Frú forseti. Vissulega hefur nokkuð áunnist. En ég bið hv. þm. að hlusta eftir þeim upphæðum sem hér voru nefndar og óska þess að hv. þingmenn líti í eigin barm og velti fyrir sér hvort þetta séu þau kjör sem þeir telji mannsæmandi og hvort þetta séu kjör sem við teljum að launafólk og öryrkjar eigi að hafa sér til viðurværis.

Ég sagði að ég vildi ekki gera lítið úr því samkomulagi sem var gert, þ.e. hugmyndafræðinni. Ég tel að þetta sé stórt skref í réttindabaráttu öryrkja, að bæta kjör þeirra sem yngstir verða öryrkjar. En því miður breyttist þessi gleðilegi viðburður, sem við hefðum öll getað verið ánægð með, í átök um réttindabaráttu og launakjör öryrkja þegar ekki var staðið við gefin fyrirheit, að hafa upphæðina hærri, þ.e. hafa forsendur útreikninganna aðrar en eru í frumvarpinu. Ef öryrkja munar um milljarð í dag, sem þá munar um, þá munar þá enn frekar um einn og hálfan milljarð. Við tökumst hér á um þennan hálfa milljarð.